139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það er rétt sem fram kemur hjá þingmanninum að dregið hefur úr tóbakssölu á yfirstandandi ári eftir þær hækkanir sem urðu. Það er líka rétt sem hv. þingmaður nefnir að í og með telja menn það kannski ekki að öllu leyti neikvætt. Tóbaksgjöldin voru hins vegar ákaflega lítill hluti af þeim aðgerðum sem gripið var til fyrir árið. Þá voru hafðar uppi miklar hrakspár af hálfu minni hlutans um að þau tekjuöflunaráform mundu ekki ganga eftir. Sá sem hér stendur hafði raunar sjálfur talsverðar áhyggjur af því að við værum að ofmeta þær tekjur sem gert væri ráð fyrir. Nú þegar hillir undir lok ársins sjáum við að langstærsti hluti tekjuöflunarinnar sem laut að hækkuninni á tryggingagjaldinu hefur sannarlega gengið eftir.

Stóru breytingarnar í sköttum á vörum og þjónustu á sumarþinginu 2009 og eins undir árslok í fyrra gera meira en að ganga eftir. Tekjuskatturinn er að vísu nokkuð undir væntingum en allar þær hrakspár sem hér voru, m.a. um auðlegðarskattinn, hafa náttúrlega hvergi nærri gengið eftir. Tekjuskattur af fyrirtækjunum skilar sér ágætlega, af þeim liðlega 50 milljarða auknu tekjum sem ráð var fyrir gert í ár sýnir sig einfaldlega að langstærstur hluti af því er að skila sér þrátt fyrir að samdrátturinn í fyrra hafi verið minni en menn ráðgerðu, en meiri á þessu ári, sem í raun og veru hefði átt að hafa mjög alvarleg áhrif fyrir tekjuhliðina.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að þessi reynsla leiði fram töluverðan trúverðugleika í þeim áætlunum um tekjuaukningu af skattkerfisbreytingum sem hér eru lagðar fram úr því að áætlanir fyrir yfirstandandi ár gengu svo vel eftir.