139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu enda er málið mjög einfalt. Menn hafa þær ranghugmyndir að hægt sé að skattleggja okkur út úr kreppunni. Það er fullkominn misskilningur eins og ágætlega er rakið í nefndaráliti frá 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar og ég hvet alla til að lesa það.

Ég ætla hins vegar að taka á tveimur þáttum sem stjórnarliðar hafa minnst á í umræðum og andsvörum. Þeir láta annars vegar líta út fyrir að þetta snúist fyrst og fremst um að skattleggja þá sem efnameiri eru og síðan eru það t.d. hugmyndir, eins og fram kom hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram, um að taka skattinn sem ríkið á inni af séreignarsparnaðinum, að það sé dæmi um það að menn ætli að fresta vandanum.

Þá vek ég sérstaka athygli á því að nú eru menn að auka í útgreiðslu á séreignarsparnaði hjá ríkisstjórninni. Ef ég skil þetta rétt — og þeir stjórnarliðar sem hér eru geta leiðrétt mig ef þetta er ekki rétt, en ég hef verið að kynna mér þetta hjá þeim sem eru í hv. efnahags- og skattanefnd — þá ætla menn að auka tækifæri einstaklinga til að taka út séreignarsparnað þannig að menn geta tekið allt að 5 millj. kr. á næsta ári. Fram til þessa hefur þetta verið í það minnsta 2,5 millj. kr., hugsanlega meira, þannig að við erum að tala um að á næsta ári getur einstaklingur verið kominn í allt að 7,5 millj. kr.

Virðulegi forseti. Þarna eru menn að fara nákvæmlega þá leið sem við sjálfstæðismenn lögðum til nema með gríðarlegu flækjustigi og svo eru menn að gera það sem þeir vöruðu sérstaklega við, að þetta verði notað til að fjármagna neyslu dagsins í dag. Það var ekki hugsunin í tillögum okkar. Hugsunin var sú að nota þessa fjármuni til að koma í veg fyrir skattahækkanir, til þess að við gætum ýtt undir það að efnahagslífið fari af stað, til þess að við getum brúað það bil sem hefði verið ef tillögur okkar hefðu náð fram að ganga milli þess tekjufalls sem er núna og þar til hjól atvinnulífsins eru farin að snúast af fullum krafti eins og það er svo oft kallað.

Það er hins vegar ekki gert. Nú ætla menn að gefa fólki tækifæri til þess að taka út séreignarsparnaðinn. Það mun valda því að ríki og sveitarfélög munu fá skatttekjurnar til þess að nýta fyrir rekstur ársins í ár. Það er ekki það sem við þurfum á að halda og við munum ekki skattleggja þetta tvisvar. Þegar þessir fjármunir eru farnir út getum við ekki skattlagt þá aftur. Á sama hátt verður þetta ekki til þess að lækka sérstaklega skuldir almennings nema þá að fólk — og ég vona að fólk geri það — nýti þetta til að lækka skuldir. Það er hins vegar ekkert sem kveður á um að svo verði og þar af leiðandi er farið það tækifæri sem er til staðar að nýta þennan séreignarsparnað hjá einstaklingum til að lækka skuldir fólks. Það eru misjafnar aðstæður hjá fólki og það eru margir sem eiga það mikinn séreignarsparnað að ef þeir gætu nýtt sér hann til að millifæra á móti skuldum væru þeir í viðráðanlegri stöðu.

Virðulegi forseti. Hér gera stjórnarliðar þvert á það sem þeir halda fram, menn eru hér að nýta skatttekjur framtíðarinnar til að fjármagna rekstur ríkissjóðs í dag en ekki til að koma í veg fyrir skattahækkanir sem við lögðum til og örva hinn efnahagslega hvata. Síðan er annað, menn settu aftur af stað eignarskattinn. Og vegna þess að allir höfðu skömm á eignarskattinum var ein útfærslan hjá vinstri mönnum meðal annars kölluð ekknaskattur. Af hverju var sá skattur kallaður ekknaskattur? Vegna þess að hann kom sérstaklega illa niður á ekkjum eða ekklum. Sem betur fer, undir öflugri forustu Þuríðar Pálsdóttur óperusöngkonu, var þessu hrundið þegar fjármálaráðherra Alþýðubandalagsins þáverandi lagði slíkan skatt á. Það tókst að afleggja þennan skatt sem hefur þá náttúru að hann leggst á eignir. Það skiptir engu máli hvort einstaklingur sem á þessar eignir fái einhverjar tekjur af eignunum eða ekki, hann fær bara skattinn.

Út af þessari náttúru eða ónáttúru eignarskattsins hafa þjóðir almennt verið að taka hann af. En þá, virðulegi forseti, kemur vinstri stjórn á Íslandi og setur skattinn á. Ég spurði út í þetta og hef lagt fram margar spurningar, bæði munnlega og skriflega. Almenna reglan er sú að ég þarf alltaf að fylgja því eftir vegna þess að við er að glíma náttúru þessarar vinstri stjórnar — eða skyldum við kalla það ónáttúru — að snúa út úr og neita að svara spurningum. (Gripið fram í.) Það er mjög alvarlegt og við komum kannski betur að því á morgun undir öðrum lið.

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra skriflega: Hefur ráðuneytið kannað hvers vegna auðlegðarskattur hefur verið afnuminn í sumum Evrópulöndum? Ég spurði hann að þessu og vitið þið hvert svarið var? Ég skal segja hv. þingmönnum að það var mjög skýrt. Spurningin er: Er búið að kanna af hverju er búið að leggja þetta af annars staðar? Svarið var eitt orð: Nei. Það var ekki gert.

Þegar menn vinna faglega eins og þeir gera hjá hæstv. vinstri stjórn eru menn ekkert að skoða svona hluti. En ástæðan fyrir því að menn hafa verið að afleggja þetta er sú að menn telja að þetta fari gegn stjórnarskrá viðkomandi landa. Þá er verið að vísa í nákvæmlega sömu ákvæði og eru í okkar stjórnarskrá. Það kemur fram í minnihlutanefndarálitinu að í Þýskalandi hafa menn áhyggjur af því að endurgreiða þurfi þennan skatt og þá eru menn að tala um tölur sem eru svo ótrúlegar að maður trúir þeim varla. En í því landi er verið að tala um 8.900 millj. kr. auk vaxta og hugsanlegra skaðabóta.

Vegna þess að hér tala menn um að einungis sé verið að skattleggja þá efnameiri spurði ég líka um auðlegðarskattinn eftir heildartekjum fólks. Fjölskylda sem fer ekki yfir 10 millj. kr. í heildartekjur á ári — hve margar slíkar fjölskyldur greiða auðlegðarskatt, skatt sem er bara fyrir mjög ríkt fólk? Það voru 387 fjölskyldur sem greiddu 186 millj. kr. Ef við skiptum þessu niður eru þetta 5 millj. kr. á hvorn aðila í fjölskyldu ef báðir eru útivinnandi og báðir með sömu launin, sem er auðvitað ekki sjálfgefið, 5 millj. kr. í heildartekjur á ári, 387 fjölskyldur. Ég held, virðulegi forseti, að við munum ræða mikið þennan nýja eignarskatt og ég held að menn muni ekki geta sagt það með góðri samvisku að hér sé bara verið að skattleggja þá sem eru ríkir eða miklir efnamenn, enda er það augljóst að þessi ríkisstjórn skoðaði ekkert hvað hefur gengið á í öðrum löndum, ekki neitt. Kannski vilja menn ekkert skoða þetta fyrr en þeir fara í Evrópusambandið, ég veit ekki hvað hv. þingmanni, varaformanni fjárlaganefndar, finnst um það.

Aðalatriðið er að þessi slagorð, um að þessar skattahækkanir komi fyrst og fremst niður á þeim sem eigi svo gríðarlega mikið af peningum að þeir hafi ekkert annað að gera við þá en að greiða þá í skatta og að hér sé verið að koma í veg fyrir að hugmyndum um að fresta vandanum sé framfylgt, standast ekki.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma þessu hér fram. Ég gæti síðan haldið langa ræðu um jaðaráhrif. Það er annað sem við þurfum að ræða sérstaklega og hver þróunin er þegar menn eru að hækka hina svokölluðu jaðarskatta sem okkur tókst nokkurn veginn að losna við. Það er eitt og sér efni í aðra ræðu. Ég ætla ekki að lengja umræðuna hér en vísa því fullkomlega á bug að skattstefna ríkisstjórnarinnar miði að því að taka fyrst og fremst skatta af því fólki sem hafi svo gríðarlega mikið fé á milli handanna að það hafi ekkert annað að gera við það. Ég hafna því fullkomlega að þetta snúist um það að við sjálfstæðismenn viljum skattleggja framtíðartekjur meðan vinstri stjórnin vilji gera eitthvað annað, því er öfugt farið eins og ég hef farið hér yfir varðandi skattlagningu séreignarsparnaðar.