139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[19:00]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leggja nokkur orð í belg um það frumvarp sem er til umfjöllunar, frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, úr því að ég gat því miður ekki af óviðráðanlegum ástæðum tekið þátt í 2. umr. um þetta mál (HHj: 1. umr.) — 1. umr., afsakið, leiðréttir hv. þm. Helgi Hjörvar mig, þegar það var hér til umfjöllunar en fylgdist ágætlega með umræðunni og sá nokkuð vel stefnur og strauma hjá hv. þingmönnum hvað varðar sjónarmið sem lúta að efni þessa frumvarps og reyndar annarra frumvarpa í þeim bandormum sem liggja fyrir.

Það má í rauninni segja að himinn og haf hafi verið á milli annars vegar talsmanna ríkisstjórnarflokkanna og hins vegar fulltrúa okkar sjálfstæðismanna sem tóku þátt í umræðunni. Það sést á frumvörpunum og því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar að eitt kunna vinstri menn ákaflega vel og það er að hækka skatta. Það hefur í gegnum söguna aldrei vafist mikið fyrir þeim að ráðast í skattahækkanir, bæði gagnvart fólki og ekki síður fyrirtækjum, og þá munar ekki um það þegar þetta frumvarp er annars vegar. Mér telst til við lauslega skoðun á frumvarpinu og þeim gögnum sem fyrir liggja í þinginu að með því sé verið að leggja til að skattar á fólk og fyrirtæki verði hækkaðir í kringum 10 milljarða kr. — 10 milljarða kr. skattahækkun er það sem boðað er í frumvarpinu. Þá veltir maður fyrir sér: Hvernig dettur þeim mönnum sem mæla fyrir þessu frumvarpi í hug að leggja slíkt til? Það er ekki eins og allt gangi vel hjá heimilum í landinu og það er heldur ekki eins og fyrirtæki landsins séu á grænni grein. Þá geta menn að mínu mati ekki látið eins og mikið sé til skiptanna.

Staðreyndin er sú að á síðasta kjörtímabili hækkaði hæstv. núverandi ríkisstjórn skatta á einstaklinga og fyrirtæki í stórum stíl og nú stefnir allt í að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon muni marka sér þann sess í stjórnmálasögunni að verða sá fjármálaráðherra sem hefur gengið hvað lengst í skattahækkunum, a.m.k. sl. áratugi.

Ég hefði talið, eins og félagar mínir úr Sjálfstæðisflokknum sem hafa fjallað um þessi mál, að það hefði verið skynsamlegri stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar við þær erfiðu aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífinu að reyna frekar að létta undir með fólki og fyrirtækjunum til þess að keyra neysluna og hjól atvinnulífsins í gang á nýjan leik. En það er auðvitað ekki þannig, það á að þjarma enn frekar að fólkinu í landinu og fyrirtækjum sem þó berjast i bökkum. Ég held að það hafi verið hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sem lýsti því svo ágætlega þegar hann var að fjalla um frumvarpið sem við ræðum og setti það í samhengi við önnur frumvörp frá hæstv. ríkisstjórn sem varða skattlagningu og gjaldtöku á fólk og fyrirtæki í landinu að þegar saman kæmu tveir bandormar, eins og þeir sem eru á dagskrá í dag, yrði til kyrkislanga. Það er auðvitað það sem hér er á ferðinni. Með þeim ráðstöfunum í ríkisfjármálum sem þessi frumvörp mæla fyrir um, ef þau ná fram að ganga, hafa þau auðvitað kyrkingaráhrif á fólkið í landinu, ráðstöfunartekjur þess og kaupmátt, og sömuleiðis á fyrirtækin. Í mínum huga er alveg ljóst að sú stefna sem hér er fylgt, stefna skattahækkunar og í raun skattpíningar, er kolröng við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Þegar maður blaðar í frumvarpinu rekur maður augun í ýmislegt eins og þær forsendur sem talsmenn þess gefa sér. Talsmenn ríkisstjórnarinnar og þeir sem koma að málum með hæstv. fjármálaráðherra virðast bara gera ráð fyrir því að þegar skattar eru hækkaðir þá aukist tekjur ríkissjóðs „no matter what“, eins og sagt er — ég biðst afsökunar á þessari enskuslettu, virðulegi forseti. Það er eins og menn sitji fyrir framan tölvuna með excel-skjal og sjái tekjur ríkissjóðs hækka eftir því sem skattprósentan verður hærri án þess að taka með inn í reikninginn að þegar skattar eru hækkaðir bregðast auðvitað þeir sem þurfa að greiða skattana við. Ef skattar á eldsneyti eru hækkaðir óheyrilega (Gripið fram í: Eða vín.) — eða brennivínið eða hvað það er sem lagt er til — hefur það auðvitað þau áhrif að bíleigandinn keyrir minna. Mér sýnist höfundar þessa frumvarps ekki hafa tekið þann þátt málsins inn í reikninginn. Þetta er eins og skákmaður sem situr við taflborðið og hreyfir hvítu mennina en gerir ekki ráð fyrir því að neinn sé að tefla á móti honum til að færa þá svörtu. Það er mikill galli á frumvarpinu að mínu mati og forsendum þess að ekki sé gert ráð fyrir því að hærri skattar hafi áhrif á tekjuöflunina.

Það er fleira í frumvarpinu sem er að sínu leyti sárgrætilegt að mínu mati. Ég sagði það einhvern tíma hér í umræðu um skattamál að skattstefnu núverandi ríkisstjórnar mætti lýsa svo að þeir skattar sem fyrir eru væru hækkaðir, nýir síðan fundnir upp og dauðir skattar sem búið væri að afnema gengju aftur. Það má segja um hinn svokallaða auðlegðarskatt sem lagt er til að verði lagður á og mér sýnist að hann eigi að skila ríkissjóði 1.500 millj. kr. í auknar tekjur, 1,5 milljörðum kr., ef ég skil frumvarpið rétt. Þetta er gamli eignarskatturinn sem nú hefur verið gefið nafnið auðlegðarskattur til þess að láta skattheimtuna líta betur út, reyna að sannfæra almenning um að (Gripið fram í.) norræna velferðarstjórnin gangi ekki að öðrum en þeim með breiðu bökin. (Gripið fram í: Formueskat.) „Formueskat“ er hér kallað fram í, einmitt. Ætli það sé ekki danska heitið á þessum auðlegðarskatti en þetta er auðvitað ekkert annað en eignarskattur og snýr ekki eingöngu að breiðu bökunum, ríka fólkinu, sem hæstv. ríkisstjórn segist ætla að skattleggja með þessum hætti.

Hér hefur verið farið yfir að tíundin gamla er elsti skattur Íslandssögunnar og honum var komið á fyrir — ætli það séu ekki að verða í kringum þúsund ár síðan tíundin var hér lögð á? Hún fékk síðar annað nafn, eignarskattur. Eignarskattur er að mínu mati einhver sá ósanngjarnasti skattur sem innheimtur hefur verið af hálfu stjórnvalda og úr því að hann leggst á eignir en ekki tekjur er hann í rauninni ígildi eignaupptöku. Þar fyrir utan leggst hann ekki bara á auðmenn landsins heldur hefur reynslan sýnt að þessi skattur hefur í gegnum tíðina komið sérstaklega illa niður á eldra fólki, gamla fólkinu, sem hefur lágar tekjur en er með ævisparnað sinn bundinn í eignum og þá í fasteignum. Það er þetta fólk sem þarf að standa undir eignarskattinum sem er í frumvarpinu kallaður auðlegðarskattur.

Við sjálfstæðismenn lögðum okkur mikið fram við að lækka þennan eignarskatt þegar við vorum í ríkisstjórn og á endanum tókst okkur að afnema hann, leggja hann niður. En því miður snýr hann núna aftur eins og afturganga og norræna velferðarstjórnin svokallaða áætlar að hann muni skila 1,5 milljörðum kr. í ríkiskassann. Það sama má segja um erfðafjárskattinn. Við gerðum verulegar breytingar á erfðafjárskattinum þegar við sjálfstæðismenn vorum við völd. Erfðafjárskatturinn hafði lengi verið geysilega hár en við lækkuðum hann verulega og áhrifin voru þau að hann fór skyndilega að skila miklu hærri tekjum inn í ríkissjóð en hann hafði gert áður þótt prósentan væri lægri.

Fjölmargt annað mætti nefna hér í tengslum við þetta frumvarp. Verið er að hækka áfengis- og tóbaksgjald og vörugjald á áfengi og tóbak. Frumvarpið mælir fyrir um kolefnisgjald. Ég fæ ekki betur séð en að bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald verði hækkað og svo mætti lengi telja. Allt þetta kemur auðvitað illa fyrir kaupmátt og ráðstöfunartekjur heimilanna í landinu. En þessir skattar og þessi gjöld hafa ekkert annað en lamandi áhrif á atvinnustarfsemi í landinu.

Ég hef farið yfir það hér á þingi og sömuleiðis í greinum, bæði á heimasíðu minni og í dagblöðum, að ég furða mig á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við tilraunum íslenskra fyrirtækja til að auka umsvif sín sem skapa um leið störf fyrir fólkið í landinu og auknar tekjur fyrir þjóðarbúið. Þannig horfir málið við mér. Í hvert skipti sem glittir í atvinnusköpun á Íslandi virðist grípa um sig einhvers konar uppnám innan ríkisstjórnarinnar og maður gengur undir manns hönd til að koma í veg fyrir uppbyggingu og verðmætasköpun. Nægir þar að nefna atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun sem tengist gagnaverum. Þess sér líka stað í frumvarpinu varðandi áfengis- og tóbaksgjald og vörugjald á áfengi og tóbak. Mér sýnist hv. efnahags- og skattanefnd gera tillögu til breytinga á þeim þætti frumvarpsins að endurskoða auknar álögur á verslun í komuverslunum fríhafna. Það var ekki þannig í upphafi. Áform voru uppi um að leggja aukna skatta á Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli og þá sérstaklega á Fríhöfnina. Við það hefði Fríhöfnin misst sérstöðu sína. Uppi voru áform um að ná þeim tekjum sem fyrirhugaðar voru í gegn með þessari gjaldtöku eða skattheimtu með öðrum hætti og þá með því að hækka flugfargjöld eða hækka gjöld á komufarþega til landsins. Það gerði það að verkum að forsvarsmenn flugfélaganna hér sáu fram á að draga mundi úr eftirspurn erlendra ferðamanna til landsins vegna þess að þeir koma ekki hingað til að greiða hærri gjöld og skatta heldur sækjast þeir eftir öðru.

Sú tillögugerð sem birtist í frumvarpinu skapaði, a.m.k. þegar frumvarpið var lagt fram, þá hættu að t.d. fyrirtækið Icelandair var með hugmyndir um að hætta við að ráða í 200 ný störf innan félagsins sem hafði verið áformað að ráðast í vegna mikillar aukningar í áætlunarflugi og fjölgunar ferðamanna til Íslands. Hefði þessi skattlagning náð fram að ganga hefðu þessi 200 störf auk annarra afleiddra starfa á flugvellinum, svo sem hjá IGS, hjá fólki sem starfar við landamæravörslu og alla þjónustu á flugvellinum, verið í hættu eingöngu vegna þess að menn sátu fyrir framan tölvuskjáinn í fjármálaráðuneytinu með eitthvert excel-skjal og reiknuðu sig þannig upp að með því að leggja aukinn skatt á Fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli væri hægt að kreista auknar tekjur upp á 1,5 milljarða kr. eða svo út úr flugvellinum og inn í ríkissjóð. Menn tóku ekki eftir afleiddum og afleitum áhrifum slíkrar skattlagningar.

Þetta eru ýmis atriði og dæmi sem ég vildi nefna í þessari umræðu. Ég vil hins vegar vekja athygli á því sem fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta hv. efnahags- og skattanefndar sem hv. þingmenn Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur H. Blöndal rita undir. Þar fylgir með sem fylgiskjal tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin, verja velferð með ábyrgum ríkisfjármálum, efla atvinnulífið og fjölga störfum. Þingsályktunartillagan felur í sér þær efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins sem voru lagðar hér fram í haust. Þar kemur fram stefnumörkun sem er allt annars eðlis en sú skattahækkunar- og, ég leyfi mér að segja, skattpíningarstefna sem sitjandi ríkisstjórn fylgir. Tillagan gengur út á að efla hér og auka hagvöxt, auka umsvifin í hagkerfinu, ýta undir neyslu og framleiðslu verðmæta til þess að koma bæði heimilum og fyrirtækjum í landinu á lappir á ný. Það er vonandi að við frekari vinnslu þessa máls eða í framtíðinni verði litið til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram í auknum mæli en þau njóta því miður ekki mikils fylgis meðal ríkisstjórnarflokkanna eins og þetta ágæta frumvarp sýnir sem mælir fyrir um að lagðir (Forseti hringir.) verði nýir skattar á (Forseti hringir.) fyrirtækin og fólkið í landinu upp á 10 milljarða kr. Það mun ég ekki samþykkja.