139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[20:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á tilvísuðum þingskjölum frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar vegna máls 313, um frumvarp til laga um breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, í daglegu tali kallað góði bandormurinn en það er síðari bandormurinn sem við fjöllum um í skattaumræðunni í kvöld. Við umræðu um hinn fyrri höfðu nokkrir hv. þingmenn á orði að tveir bandormar saman væru kyrkislanga og sáu jafnvel orðið afturgöngur í þeim skattamálum sem hér eru á ferðinni. Ég held að slíkar sýnir í þingsalnum á föstudagskvöldi gefi þeim hv. þingmönnum fullt tilefni til að gæta að sér.

Góði bandormurinn fjallar kannski fyrst og fremst um ýmsar úrbætur og endurbætur á tæknilegum atriðum í hinu skattalega umhverfi. Efnislega fjallar hann í fyrsta lagi í meginatriðum þetta árið um breytingar á skatthlutföllum milli sveitarfélaga og ríkisins vegna tilfærslunnar á málefnum fatlaðra. Það eru einfaldlega innri breytingar milli þessara stjórnsýslustiga og hafa ekki áhrif til að hækka eða lækka tekjuskatt hjá einum eða neinum heldur flyst einfaldlega hluti af skatttekjunum með verkefnunum til sveitarfélaganna.

Þá er hér að finna nokkur ívilnandi ákvæði um skattalega meðferð á eftirgjöf skulda til atvinnulífsins. Það varð niðurstaðan úr viðræðum við lánastofnanir til að greiða fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækjanna í landinu. Brýnasta verkefnið í hinni efnahagslegu endurreisn Íslands er nú að greiða sem mest fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu atvinnufyrirtækjanna til að þau komist sem allra fyrst í það ástand að geta fjárfest með efnahagsreikning sem er varanlegur. Er talið nauðsynlegt að ívilna nokkuð eftirgjöf skulda hvað varðar skattahliðina.

Í þriðja lagi er að finna í frumvarpinu býsna viðamiklar breytingar sem lúta að nýsköpunarmálum. Betur hefði farið á því að sá þáttur bandormsins hefði komið fram sem sjálfstætt þingmál og fengið sérstaka umfjöllun í þinginu. Þar er verið að nema úr gildi hlutabréfaafslátt sem var lögleiddur fyrir ári vegna kaupa á hlutafé í nýsköpunarfyrirtækjum og það er sannarlega miður vegna þess að þetta var ein af þeim hvetjandi aðgerðum sem ríkisstjórnin greip til í skattalegu tilliti til að örva hér nýsköpun. Því miður er það niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA að sú fyrirgreiðsla sé óheimill ríkisstuðningur og þess vegna er nauðsynlegt að fella hana úr gildi en nefndin leggur áherslu á að eftir sem áður verði leitað leiða til að veita einstaklingum hlutabréfaafslátt en kannað fyrst hjá Eftirlitsstofnuninni hvort slíkt sé heimilt. Ljóst er að skattaleg ívilnun til fyrirtækja vegna fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum með þessum hætti fær ekki staðist. Sömuleiðis eru nokkur ákvæði sem lúta að stuðningi við rannsóknarstarfsemi í landinu og þau ákvæði eru ívilnandi.

Síðan er að finna í frumvarpinu ákvæði um lífeyrissjóðina. Eitt ákvæði er tæknilegs eðlis fyrst og fremst. Síðan er annað sem framlengir ákveðið svigrúm sjóðanna til að það áfall sem þeir hafa orðið fyrir þurfi ekki að verða til þess að skerða lífeyriskjör meira en nauðsynlegt er. Þeim eru því skömmtuð vikmörk úr 10% í 15% tímabundið eftir fjármálaáfallið. Fram kom við umfjöllun nefndarinnar að það er aðeins einn af stærstu fimm sjóðum landsins sem þarf á þessum auknu vikmörkum að halda og það óverulega. Ég hygg að þetta verði í síðasta sinn sem við framlengjum þessa heimild.

Að lokum er að finna í máli 313, frumvarpi til laga um breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, nokkur ákvæði til að færa skattrannsóknarstjóra heimild til að krefjast húsleitar í tilteknum tilfellum og hjá tilteknum aðilum í tengslum við skattrannsóknir sem eiga að greiða fyrir framgangi og rannsókn á þeim málum.

Um síðasta þáttinn er það að segja að honum vísaði efnahags- og skattanefnd til allsherjarnefndar og hún mælti með því að sá þáttur yrði lögfestur sem og þeir umsagnaraðilar sem um hann fjölluðu.

Það eru út af fyrir sig ekki viðamiklar breytingar sem nefndin gerði á þessu máli til 2. umr. en taldi þó rétt að verða við ósk sveitarfélaganna um að útsvarsgreiðslur manna mörkuðust ekki einvörðungu af því hvar þeir hefðu átt lögheimili 1. desember ár hvert. Sveitarfélögin lögðu mikla áherslu á að menn gætu flutt lögheimili sitt hvenær sem er innan ársins og það væri eðlilegt að útsvarstekjur flyttust þá á milli sveitarfélaga í þeim mánuði sem þeir flyttu lögheimili sitt. Nefndin taldi það eðlilegt og að í nútímaupplýsingasamfélagi ætti að vera unnt að verða við því en setur hins vegar gildistöku ákvæðisins aðeins inn í framtíðina til að ríkisskattstjóri hafi gott svigrúm til að bregðast við þeirri kerfisbreytingu því að hún mun auðvitað kalla á ákveðna vinnu á þeim vettvangi.

Sömuleiðis leggur nefndin til að fjárhæðarmörk til að fá stuðning vegna rannsóknarstarfsemi verði lækkuð. Einnig er að finna í breytingartillögum við 2. umr. nýjan kafla í bandorminn sem lýtur að tollagjalddögum á nýju ári og því að fyrirtækjunum gefist greiðslufrestur frá þeim nokkuð fram eftir árinu. Það var gert í kjölfar hrunsins og hefur sömuleiðis lítillega verið gert á yfirstandandi ári og er talið nauðsynlegt í upphafi næsta árs til að létta fyrirtækjunum róðurinn við þær erfiðu aðstæður sem við nú búum við.

Nokkrar aðrar lítils háttar breytingar er að finna í tillögum nefndarinnar en þær eru svo smáar eða tæknilegar að ég tel ekki tilefni til að reifa þær frekar.