139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[20:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Þetta frumvarp eins og nánast flest eða öll önnur frumvörp sem við ræðum núna hefur verið keyrt í gegn með gífurlegum hraða og hlýt ég enn einu sinni að gagnrýna það alveg sérstaklega vegna þess að við, allir þingmenn, hver einasti, samþykktum í sumar þingsályktun um að auka virðingu Alþingis og styrkja það gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við erum settir í þá stöðu rétt fyrir jól að þurfa að afgreiða mál með þvílíkum hraða að menn komast varla yfir það að skrifa nefndarálit. Hér var jafnvel nefndarálitum dreift sem ég náði ekki að lesa áður en þeim var útbýtt. (BJJ: Þetta er alveg hryllilegt.) Það er eiginlega ekki boðlegt, frú forseti, og verður að gera athugasemd við það aftur og aftur, það er eitthvað sem menn verða að laga, þ.e. ef af framkvæmd verður.

Ég vil reyndar miklu frekar að Alþingi sjái sjálft um að skrifa frumvörpin, að frumvarpssmíðin verði á hendi nefndanna. Ég er nærri viss um að það yrði miklu betra skipulag. Við getum að sjálfsögðu flutt það fólk til okkar inn í Alþingi sem starfar við lagasmíð í ráðuneytunum og mundum þá þurfa að skipuleggja það vel og nákvæmlega. Þá gætum við ekki lengur kvartað undan því að það væri seint á ferðinni. Þá væri það bara okkar mál.

Þetta eru mörg frumvörp, þetta eru í rauninni mörg mál og það ætti í sjálfu sér að vera með þetta í mörgum frumvörpum. Mér sýnist stærri málin vera 12 talsins og svo eru þarna fjöldamörg minni. Þetta eru 58 greinar. Þessi mál hefðu átt að koma í alla vega þremur, fjórum frumvörpum. Hv. formaður nefndarinnar nefndi í framsöguræðu sinni að t.d. málefni nýsköpunarverkefnisins hefðu átt að koma sem sérfrumvarp þannig að maður gæti rætt það sem slíkt. En nú neyðist maður til að skauta yfir fjöldann allan af málum á miklum hraða, reyndar hef ég góðan tíma til þess en það er ekki æskilegt að dansa á milli verkefna.

Við byrjum á því að ræða um skatta og tekjur af innlánsreikningum í erlendri mynt. Framkvæmdin var náttúrlega ógerleg í fyrra, eins og minni hlutinn benti á, og mér skilst að hún hafi ekki verið framkvæmd af því að það var ekki hægt. Nú er búið að laga það. Nú er það þannig að þegar menn taka út af reikningi er reiknað væntanlega út frá elstu upphæð hvað maðurinn tapar eða græðir. Ef hann á dollara verður að athuga hvert gengið var þegar hann lagði fyrst inn og hve stóran hluta af þeim dollurum hann tekur út. Það er þá metið hvort það hækkar eða lækkar, hvort hann hefur tapað eða grætt.

Vandamál kemur upp þegar maður er með tvo reikninga, annan í jenum og hinn í bandaríkjadollurum. Þeir sem þekkja það vita að þessar myntir dansa hvor gagnvart annarri og það getur verið hagnaður á öðrum reikningnum og sæmilegt tap á hinum, þá viljum við láta reikna það saman. En það er ekki nóg með það heldur geta menn verið með fjármagnstekjur annars staðar. Ég nefni sem dæmi mann sem er með evrureikning. Þegar hann lagði féð inn var það 3 millj. kr. virði. Hann tekur út 2 millj. kr. en evrureikningurinn sýnir milljón kr. tap. Evran hafði sem sagt fallið þetta mikið í millitíðinni. Það getur gerst í framtíðinni. Sumir segja að íslenska krónan lifi jafnvel lengur en evran þótt merkilegt megi virðast. Slík er staðan. Evran getur náttúrlega fallið og þá geta menn lent í að vera með tap upp á milljón kr. á einum reikningi. Svo getur verið að þessi maður leigi út húsnæði og sé með milljón kr. hagnað í leigutekjur, 75% af leigutekjunum — nú teljast það 75%, það er enn ein aðferðin til að flækja skattkerfið — og það sé milljón sem hann fái út úr því. Þá finnst mér mjög óeðlilegt og ósanngjarnt og á allan máta óhæfa að maðurinn borgi 20% í fjármagnstekjuskatt af milljón kr. leigutekjunum, því að það á víst að hækka það líka — reyndar er búið að gera það ef það verður samþykkt í kvöld — en að vera með milljón kr. tap á móti í fjármagnstekjum. Mér finnst alveg fráleitt að hann borgi 200 þús. kr. á meðan hann er í rauninni á núlli. Við sjálfstæðismenn í hv. nefnd gerum því tillögu um að reikna skuli saman allar fjármagnstekjur einstaklingsins yfir árið og hann borgi skatt af því ef það er yfir núlli. Þarna geta líka komið inn í verðtryggðir reikningar, þeir gætu fallið ef verðhjöðnun verður. Svo megi líka draga frá það sem menn tapa sannanlega á fjárfestingum, þ.e. neikvæðar fjármagnstekjur, sem gæti gerst t.d. ef menn tapa á hlutabréfum, þá gætu menn dregið það frá þessum fjármagnstekjum. Þá er það orðið svona sæmilega sanngjarnt að borga skatta þó að það sé langt frá því sanngjarnt að borga 20% því að þá eru menn farnir að nálgast skatta á laun sem er allt annar stofn til tekna en fjármagnstekjur. Fjármagnstekjur eru með verðbótum og alls konar þáttum inni í sem ekki eru tekjur í rauninni.

Svo er það 2. liður, söluhagnaður við sölu íbúðar látins manns. Litið er á dánarbú sem fyrirtæki, það er dálítið merkileg hugsun að menn skuli fara í atvinnurekstur eftir dauðann. En það hefur sýnt sig að ef dánarbú selja fasteignir, en fasteignir sem hinn látni skildi eftir sig eru oft seldar í dánarbúinu, þá er reiknaður á það skattur vegna þess að dánarbúið er fyrirtæki með hagnað og sá skattur á að vera 20%. Svo er það aftur skattað með erfðafjárskatti, það er óeðlilegt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það gildi bara fyrir íbúðarhúsnæði.

En menn geta verið með hagnað af öðru, menn geta líka verið með hagnað af sölu iðnaðarhúsnæðis, traktors, bíls eða eitthvað svoleiðis, þannig að mér finnst óeðlilegt að dánarbú séu látin borga skatt eins og fyrirtæki. Mér finnst það mjög óeðlilegt. Við leggjum til í breytingartillögu nr. 2 að hagnaður dánarbús sé ekki skattskyldur.

Næsta mál er réttur einstaklinga sem eru búsettir erlendis og fá 75% tekna sinna á Íslandi, að þeir megi njóta skattskyldu á Íslandi. Það er í samræmi við erlendar reglur. Við tökum undir það og fögnum því að menn megi gera það.

Svo er það næsta atriði, skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda hjá lögaðilum og það er í sambandi við atvinnulífið, að ganga frá skuldum fyrirtækja. Það verður mjög mikið atriði héðan í frá. Það sem við gagnrýnum í því sambandi er að ekki má sameina fyrirtækin, kljúfa þau í sundur eða gera neitt á þessum tíma og það má ekki borga út arð. Það teljum við að geti orðið til tjóns fyrir atvinnulífið, að það muni stöðva nauðsynlega hagræðingu sem einmitt þessi fyrirtæki þurfa að fara í eftir að búið er að endurskipuleggja þau. Það eru einmitt þau sem þurfa að vinna mest í því. Það vannst þó ekki tími til að koma með breytingartillögu vegna þess að það er mjög flókið mál en meiri hlutinn tekur reyndar á því að einhverju leyti í breytingartillögum sínum.

Þá er það greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Í fyrra var mönnum leyft að breyta skuldum sínum í langtímalán. Það er framlengt og í sjálfu sér er það góðra gjalda vert, það kannski aðferð til að ná þessum tekjum yfirleitt inn. Menn fá þá líka ákveðin skil á því hvað þessir skattar eigi að vera miklir.

Síðan er flutningur á málefnum fatlaðra yfir til sveitarfélaga, það hefði að sjálfsögðu átt að vera sérkafli, frú forseti. Það á að hækka útsvarið um 1,2% og lækka tekjuskattinn um sömu prósentu til að standa undir rúmlega 1.100 milljarða kostnaði við málefni fatlaðra sem voru flutt til sveitarfélaganna. Við gerum ekkert annað en fagna því. Við fögnum að sjálfsögðu flutningi málefna fatlaðra eins og við gerðum í dag þegar við greiddum atkvæði með því að sá málaflokkur yrði fluttur til sveitarfélaganna.

Síðan er tímabundin hækkun á vikmörkum milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða. Það er hættulegt ákvæði en eins og hv. formaður nefndarinnar kom inn á er ekki mjög brýn nauðsyn á því. En við vörum við því að þetta sé gert því að það frestar því í rauninni að taka á ákveðnum vanda og gerir það að verkum að lífeyrissjóðirnir borga hærri lífeyri en þeir þyrftu ella að gera, á kostnað þeirra sem sitja eftir í sjóðunum, þeirra sem eiga eftir að fá lífeyri. Það skekkir jafnræði á milli sjóðfélaga. Vikmörkin eru einmitt höfð til að lífeyrissjóðirnir taki á því. Mikil umræða var um hvað vikmörkin ættu að vera há þegar þau voru sett á sínum tíma fyrir langalöngu. Menn vilja ekki hringla með lífeyrinn upp og niður árlega eftir því hver staða lífeyrissjóðsins er en ég tel að 10% mörkin sem sett voru séu með hæsta móti, þau ættu jafnvel að vera 7% eða eitthvað slíkt, þannig að við vonum bara að það verði lagað.

Í því sambandi skoðuðum við stöðu opinberu sjóðanna. Það er nefnilega svo merkilegt að það þarf að skerða almennu sjóðina þegar illa gengur og stjórnin nær ekki nauðsynlegri ávöxtun með réttu eða röngu. Stundum á hún sök á því sjálf, stundum eru það ytri aðstæður, hrun eða eitthvað slíkt, sem valda því að hún nær ekki þeirri ávöxtun sem hún þarf, sem er 3,5% umfram laun. Það breytir engu fyrir opinbera sjóði hvort stjórnin stendur sig í því að ávaxta féð eða ekki vegna þess að það er ríkisábyrgð á réttindunum. Það sem gerist í kjölfarið er að það þarf að hækka iðgjaldið.

A-deildin í LSR er reyndar þannig að hún á að standa undir sér en nú í nokkur ár hefur hún verið rekin með 15,5% heildariðgjaldi þar sem sjóðfélagarnir borga 4% og atvinnurekendur, þ.e. ríki, sveitarfélög og stofnanir, 11,5%. Iðgjaldið þyrfti sennilega að hækka um 4%, hvorki meira né minna, 4% af launum allra opinberra starfsmanna. Ég vil benda á að það er mjög mikilvægt að menn taki á þessum vanda strax. En þegar ég skoða reikninga LSR sýnist mér vanta 400 milljarða í B-deildina. Ég hef svo sem bent á það áður en þetta er jafnmikið og gamla Icesave sem margir samþykktu fyrir ári og ættu að útskýra af hverju þeir gerðu það. Þetta er í rauninni skuldbinding vegna gamla Icesave sem þjóðin svo felldi og ég held að það sé mjög mikilvægt að menn taki á þessum vanda sem allra fyrst.

Það eru um 3 millj. kr. á hvert heimili í landinu, frú forseti. Hvert heimili í landinu skuldar B-deild LSR 3 millj. kr. að meðaltali. Inn í þessa deild, þessa hít, greiða enn þá um 6.000 sjóðsfélagar. Okkur, sem skrifum undir þetta nefndarálit, finnst að það verði að stöðva. Nú þyrfti hæstv. fjármálaráðherra eiginlega að heyra sögu mína eða það sem ég er að tala um. Nú veit ég ekki hvort hann er í húsinu en það er kannski hægt að koma skilaboðum til hans?

(Forseti (ÁI): Forseti tekur fram að hæstv. fjármálaráðherra er í húsinu og heyrir væntanlega ræðu hv. þingmanns.)

Það gleður mig mjög vegna þess að við ætlum að leggja til að inngreiðslur í B-deild verði stöðvaðar þannig að menn haldi ekki áfram að láta skuldbindinguna vaxa og að þær verði stöðvaðar frá og með þarnæstu áramótum. Það er brýnt að það verði samþykkt fyrir áramót þannig að hægt sé að stöðva það frá og með þarnæstu áramótum. Af hverju gerum við það um þarnæstu áramót en ekki strax um næstu áramót? Það er vegna uppsagnarákvæða hjá opinberum starfsmönnum, það þarf að segja þeim upp eða það verður möguleiki að segja þeim upp vegna þess að það getur skert eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Menn eiga rétt á að borga iðgjald í þennan sjóð nema þeim sé sagt upp. Það er þá hægt að segja þeim upp ef þeir sætta sig ekki við þessa breytingu. Við leggjum til að iðgjöld í B-deild verði stöðvuð frá 1. janúar 2012. (BJJ: Það er róttækt.) Það er í breytingartillögu hjá okkur. (BJJ: Það er róttæk tillaga.) Það er mjög róttæk tillaga, frú forseti, að fengnu frammíkalli, og ég vildi gjarnan að Alþingi hugleiddi það í alvöru vegna þess að þarna hefur vaxið einhver skuldbinding, hún er búin að vaxa okkur yfir höfuð. Þetta fólk er búið að borga í ein 13, 14 ár frá því að aðlögunarsamningarnir voru gerðir og B-deildin var stofnuð og skuldbindingin bara vex og vex. Samt er búið að borga óhemjufé inn í þetta en hefur reyndar stöðvast á síðustu árum og það er miður. Menn horfast ekki í augu við þessa skuldbindingu frekar en margar aðrar. Í því sambandi nefni ég Hörpu, sjúkrahúsið, vegagerð og alls konar skuldbindingar sem menn fela.

Svo er stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki. Það kom í ljós að það sem menn ætluðu að veita skattafslátt á, vegna kaupa á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum, var ekki heimilt samkvæmt tilskipun eða athugasemd frá ESA, menn bökkuðu með það og er það dálítið miður. En við munum eftir því að fyrir langalöngu var heimilt að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum almennt, þ.e. einstaklingar gátu gert það. Við gerum breytingartillögu. Við erum svo framsýn að við gerðum þá breytingartillögu að fólk megi kaupa aftur skammtinn sinn af hlutabréfum.

Ég veit að það vantar ansi mikið upp á traust á hlutabréfum sem fór forgörðum þegar hrunið varð og 60 þúsund manns töpuðu 80 milljörðum, venjuleg heimili töpuðu 80 milljörðum af hlutabréfum og ég hugsa að það séu sárafáir Íslendingar sem ekki þekkja einhvern sem tapaði hlutabréfum og þá öllu, öllum sínum sparnaði sem hann hafði sett í hlutabréf. Þess vegna er mikið verk að vinna að koma aftur á trausti en þáttur í því gæti verið að verðlauna menn fyrir að kaupa hlutabréf. (BJJ: Og fá nýja ríkisstjórn.) Já, það er náttúrlega sjálfgefið, ég þarf ekki að tala um það, frú forseti, til að auka þjóðinni von og bjartsýni þarf náttúrlega nýja ríkisstjórn. En ég held að það gæti verið snjallt að samþykkja að menn megi kaupa almennt hlutabréf, ekki bara í nýsköpunarfyrirtækjum, því að það vantar ekki síður fjárfestingu á öðrum sviðum en í nýsköpun.

Reyndar gerum við athugasemd við hvernig nýsköpunin er skilgreind. Það er eins konar háskólanýsköpun, eins og mjög margt sem gert er, og miðast við rannsóknir og tilraunir og annað slíkt þannig að við gerum athugasemd við það og vörpum fram þeirri spurningu hvort ekki sé margt annað sem er nýsköpun. Við nefnum t.d. dúkkulísuforrit á Ísafirði, ég held að það séu ekki miklar rannsóknir eða annað á bak við það en þar var manneskja sem fékk afskaplega snjalla hugmynd. Eins sleðahundaferðir, það var hvorki um að ræða rannsóknir né þróun. Ég held að maður nokkur hafi keypt sér hundasleða frá Grænlandi.

Svo má líka segja um mörg fyrirtæki sem eru í rannsókn og þróun að það er ekki beint nýsköpun þegar menn rannsaka nýja tegund af bílum, hvernig á að hafa litinn á þeim o.s.frv. Það er búið að framleiða bíla í 100 ár þannig að það er ekkert sérstaklega nýsköpunarlegt við það. Ég held að menn þurfi að endurskoða hugmyndina eða hugsunina um nýsköpun.

Síðan er það heimild til að leigja og flytja inn bílaleigubíla frá bílaleigum á EES-svæðinu. Það er eitt málið sem við ræðum í þessum mikla bandormi eða höggormi eða hvað menn vilja kalla þetta eða jafnvel kyrkislöngu þegar þetta kemur allt saman og kyrkir þjóðina, að enn megi flytja inn bílaleigubíl með sér frá útlöndum eða jafnvel að Íslendingar geti leigt bílaleigubíl frá útlöndum. Ég held að það sé ágætt upp á samkeppni að gera þetta í þessari grein þannig að við tökum undir það.

Það er fleira sem við tókum ekki með vegna þess að okkur þótti það ekki nægilega mikið en ef tími hefði gefist til hefðum við örugglega tekið það með, eins og stórfellda hækkun á mörgum gjöldum tengdum sjávarútvegi, alls konar gjöld sem eru undarleg. Við tókum það ekki með hreinlega vegna tímaskorts, frú forseti, það verður að viðurkennast. Þegar klukkan er orðin eitt að nóttu fer hvatinn til að taka minni háttar mál með að minnka, enda er af nógu stóru að taka. Það sem við tókum þó fyrir var niðurfelling stimpilgjalds af skilmálabreytingum. Til stóð að framlengja þær til ársloka næsta árs, 2011, en ef menn skoða skilmálabreytingarnar, frú forseti, hverjir eru það standa í slíku? Hverjir lengja lánin sín, breyta þeim eða gera ýmiss konar tilfæringar? Það er yfirleitt fólk í miklum vanda sem hefur ekki getað staðið í skilum, í uppboðsmeðferð og alls konar svoleiðis. Þetta er eiginlega skattlagning á eymd og fátækt og mér finnst ekki að eymd og fátækt eigi að vera skattstofn fyrir ríkið. Ég hef verið á þeirri skoðun í fjölda ára. Þess vegna leggjum við til að þessi tímabundna niðurfelling verði gerð varanleg. Ég skora á hv. þingmenn að samþykkja það sisvona að gera það varanlegt. Við eigum ekki alltaf að vera með einhverjar smáskammtalækningar, að fella niður skattlagningu á eymd bara í eitt og eitt ár og segja að það sé allt í lagi að skattleggja fátæktina og eymdina þegar árið er liðið.

Við gerum því tillögu um það, og það eru fimm breytingartillögur sem við gerum, um að þessi skattlagning, stimpilgjald, verði afnumin eða niðurfelling hennar gerð varanleg. Við bendum líka á að þróunin hljóti að stefna í þá átt að þessi undarlegi skattur sem stimpilgjaldið er — það er mjög undarlegt, gjald fyrir að stimpla verðbréf. Það heitir stimpilgjald og einu sinni voru verðbréfin raunverulega stimpluð, hvert einasta. Ég stóð með stimpilvélina fyrir langalöngu. Það var náttúrlega alveg fáránleg iðja. Það er eldgamall skattur og hann á engan veginn við í dag. Samkeppnisaðilar bankanna í útlöndum borga ekki stimpilgjald, þetta er eiginlega alveg fáránlegt kerfi. Það kemur niður á íbúðakaupendum og þeim sem eru í vandræðum, frú forseti, þannig að við leggjum til að það verði fellt niður.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þennan mikla bandorm sem á að heita góði bandormurinn en er kannski ekki svo voða góður þegar maður fer að skoða hann.