139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en koma með örstutta athugasemd, hún hefði getað farið undir liðinn störf þingsins.

Síðastliðinn laugardag var ég boðaður á fund í efnahags- og skattanefnd kl. 9 að morgni. Það er allt í lagi með það. Á dagskrá voru tvö mál og svo önnur mál. Ég bjó mig náttúrlega undir þessi tvö mál kvöldið áður og eitthvað fram í nóttina til að vera undirbúinn. Á miðjum fundi, frú forseti, en fundurinn átti að standa til kl. 12, er dreift nýrri dagskrá með fjórum viðbótarmálum þannig að samtals urðu á dagskrá sex mál og stóð fundurinn til kl. 4. Fjöldi gesta kom o.s.frv. Ég veit ekki, ég er nú ekki sérfræðingur í þingsköpum, en ég efast um að þetta standist. Og þetta er ekki gott vegna þess að ég vil vera undirbúinn undir þau mál sem nefndin ræðir. Ég get það ekki þegar dagskránni er breytt á miðjum fundi. Ég gagnrýni þetta eins og margt annað sem hefur gerst í haust. Þó að ég sé kannski ekki alveg hlutlaus þá hugsa ég að þetta hafi sjaldan verið verra.