139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[21:19]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú ætla ég ekki að svara fyrir þá síðustu 18 mánuði sem þetta mál hefur verið í vinnslu. Ég hygg að það sé nær 18 dögum sem það hefur verið á borði efnahags- og skattanefndar. Ég held að það væri með öllu ómálefnalegt að halda því fram að það hafi tekið langan tíma í vinnslu nefndarinnar að finna á því viðunandi lausn. Eins og hér hefur margoft verið rætt í kvöld er það heldur hitt, að nefndinni hafi verið ætlaður allt of lítill tími á þessu haustþingi til að ráða fram úr þeim mörgu og stóru álitaefnum sem henni hafa verið falin.

Ég get þó ímyndað mér að það gætu verið ýmis sjónarmið til þess að menn hafi ekki verið farnir til ESA fyrr, t.d. það sem var nefnt um að hér var gerður fjárfestingarsamningur við eitt af þessum gagnaverum. Eftirlitsstofnunin ákvað að taka hann til umfjöllunar og það getur auðvitað verið sjónarmið að vilja ljúka til að mynda þeim þætti fyrst. Það eru þó í sjálfu sér bara getgátur af minni hálfu. Ég er ánægður yfir því hér og ég held að við eigum ekki að fást mikið um það sem á undan er gengið. Frá því að málið kom inn í þingið hefur það tekið miklum og góðum breytingum og margir þingmenn hafa lagt þar hönd á plóg. Ég held að við eigum bara að vera ánægð saman með að á vettvangi þingsins hafi fundist lausn á þessum tiltölulega stutta tíma.