139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[21:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það hefur verið mikil umræða um það hvert við eigum að stefna í atvinnuuppbyggingu í landi okkar til framtíðar. Flestir eru sammála um að helsti vonarneisti okkar sé í nýtingu á orku í iðrum jarðar og vatnsorku okkar og felist þá í orkufrekum iðnaði. Ég held að það hafi verið samdóma álit allra að það væri sjálfsagt að leita eins fjölbreyttra leiða í þeim efnum og frekast er unnt og væri ástæða til að fjölga leiðum frá því sem verið hefur. Margir hafa gagnrýnt að við séum of einhæf þegar við erum að byggja svo mikið á álframleiðslu sem raun ber vitni. Það er þó sjálfsagt þegar við ræðum hér um þessar skattaívilnanir sem við erum að greiða leið fyrir nýjum iðnaði, nýjum vaxtarsprota, sem eru þessi gagnaver, að bera það aðeins saman, það er bara eðlilegt og réttlátt að bera saman hvað t.d. þessar mismunandi leiðir gefa af sér.

Það er talið að í gagnaverum sé u.þ.b. eitt starf á hvert megavatt. Auðvitað getur þetta verið meira í gagnaverum sem byggja upp fjölbreyttari þjónustu, en í beinni vinnu við einföldustu gerð af gagnaverum er þetta talið vera mælikvarðinn. Það er talið að það megi reikna með tveimur til tveimur og hálfu starfi þegar tekið er tillit til beinna og afleiddra starfa. Í álverum er um eitt og hálft starf á hvert megavatt sem við notum. Það er talið að bein og afleidd störf séu um fjögur og hálft. Á þessu er alveg grundvallarmunur. Það verður auðvitað líka grundvallarmunur á útflutningsverðmæti þessara fyrirtækja vegna þess að verðmæti í álframleiðslu eru gríðarlega mikil. Það verður sennilega hvergi eins mikil verðmætaaukning og í álframleiðslu í nokkrum orkufrekum iðnaði. Það er fagnaðarefni að Alcoa á Austurlandi skuli fagna þeim áfanga núna að vera að framleiða milljónasta tonnið og að flutt hafi verið út verðmæti fyrir um 265 milljarða kr. frá því að það tók til starfa. Á síðasta ári var útflutningsverðmæti afurða frá því álveri um 75 milljarðar kr., þar af urðu eftir um 30 milljarðar kr. á Íslandi.

Það kom fram hjá einum hv. þingmanni í hv. iðnaðarnefnd þegar þetta mál var til umræðu þar að það væri svo lítið upp úr þessum gagnaversiðnaði að hafa. Það skyldi þó ekki vera það sem stóð í fjármálaráðuneytinu þegar það fór að skoða málið, að því hafi fundist vera svo lítið upp úr því að hafa ef þessar skattaívilnanir þyrftu að koma til? Ég benti þá viðkomandi hv. þingmanni á að það væri auðvitað ekki hægt að bera þetta saman við þann iðnað sem er fyrir í landinu og skilar svo miklu sem raun ber vitni.

Það er ekki rétt að greiða ekki þessum iðnaði leið á þeirri forsendu. Það er auðvitað sjálfsagt að auka fjölbreytnina. Það er mjög eftirsóknarvert og það er fagnaðarefni að við skulum vera að ná þeim áfanga að þessi vaxtarsproti skuli verða að veruleika. Ég bind miklar vonir við það að hér eigi eftir að vaxa efnilegur og sterkur iðnaður upp af þessum rótum og víða um land. Það hefur verið talað um að þessi starfsemi geti farið fram svo auðveldlega úti um hinar dreifðu byggðir. Það er ánægjuefni vegna þess að þar þurfum við kannski helst að styrkja dálítið stoðir atvinnulífsins.

Þessi málsmeðferð hér í þinginu er búin að vera ákaflega sérstök síðustu 12–18 mánuði. Fjárfestingarsamningur um gagnaversfyrirtækið Verne Holdings á Suðurnesjum — starfsemi og uppbygging þess lagðist af um tíma — lá fyrir þinginu allan síðasta vetur. Mjög áhugaverður erlendur aðili, Wellcome Trust, breskur fjárfestingarsjóður, kom að borði og vildi fjárfesta hér fyrir milljarða. Allan þann tíma sem það var til umræðu í hv. iðnaðarnefnd lá alveg ljóst fyrir að virðisaukaskattsmálið, það að þessi starfsemi þyrfti að fá ívilnanir gagnvart virðisaukaskattskerfinu, væri órjúfanlegur þáttur til að þessi starfsemi gæti farið af stað, grundvöllur fyrir þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er. Þetta hefur allan tímann legið fyrir og meðan við tókumst hér á um þennan fjárfestingarsamning, meðan við tókumst á um að koma þessu í gegnum ríkisstjórnarflokkana, vil ég segja, að koma þessum fjárfestingarsamningi á, var talað um það við hv. iðnaðarnefnd að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af þessu virðisaukaskattsmáli, því yrði kippt í liðinn. Þetta kom ítrekað fram í umræðum í þinginu og í umræðum um þetta mál innan nefndarinnar.

Það er margt sem getur sprottið af þessum iðnaði í framtíðinni. Það er mjög mikið gleðiefni að við skulum vera búin að ná þessari niðurstöðu vegna þess að í kringum þennan iðnað getur auðveldlega sprottið mikill þekkingariðnaður sem skapar verðmæt störf og miklar útflutningstekjur. Þá erum við að tala um störf sem mörg hver eru unnin af hámenntuðu fólki.

Það sem nefndin hefur verið að fjalla um er spurning um jöfnun á samkeppnisstöðu milli þessara fyrirtækja hér á landi og þess sem gerist í Evrópu, í raun kannski jöfnun á samkeppnisstöðu við það sem aðrir atvinnuvegir, útflutningsatvinnuvegir, búa við á Íslandi. Það er ekki sú tvísköttun í gangi sem lá fyrir að yrði gagnvart þessum iðnaði ef óbreytt hefði verið haldið áfram. Sjávarútvegur greiðir t.d. ekki virðisaukaskatt af útflutningi á sínum fullunnu afurðum. Útflutningsafurðir álvera bera ekki virðisaukaskatt.

Það er í mörg horn að líta þegar við ræðum um þetta mál og miklir hagsmunir í húfi. Hér hefur verið lagður sæstrengur og forsendan fyrir að leggja hann var að þessi starfsemi færi af stað. Fjárfesting ríkisins er sennilega komin yfir 10 milljarða kr. í þessari framkvæmd og í því efni. Það er alveg með ólíkindum að fjármálaráðuneytið skuli hafa verið að þvælast fyrir í þessu máli eins og raun ber vitni með þá vitneskju í farteskinu að það hefði gert að engu þessa miklu fjárfestingu vegna þess að það hefði verið til einskis farið í alla þessa fjárfestingu í sæstrengjum ef þessi starfsemi hefði ekki farið af stað.

Hver sú erlenda fjárfesting sem fer af stað hér á landi við þessar erfiðu aðstæður er mikill ávinningur, og traust felst í því að fá þetta fyrirtæki til að fjárfesta á Íslandi. Það traust sem fylgir þeim fyrirtækjum sem hér koma að borði, þessum myndarlega breska fjárfestingarsjóði sem nýtur mikillar viðurkenningar þar í landi og víðar, yfir 80 ára gamalt fyrirtæki, var líka í húfi í þessu sambandi. Stórir viðskiptavinir þessa gagnavers voru og eru einnig þekkt fyrirtæki sem er mikill ávinningur af að fá til landsins með starfsemi sína eða hluta af starfsemi sinni, mikill ávinningur til þess að efla traust okkar á erlendum vettvangi. Ekki veitir af.

Þetta er dæmigert fyrir stöðuna á stjórnarheimilinu. Það var í þessu djúpstæður ágreiningur milli iðnaðarráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Í fjármálaráðuneytinu var staðið í vegi fyrir því sem hér var beðið eftir að færi af stað og kæmist í gegn, á meðan iðnaðarráðuneytið barðist með okkur í því að reyna að koma þessu máli áfram. Það er auðvitað alveg skelfilegt, virðulegi forseti, þegar staðan er slík.

Þetta er svo sem víða í atvinnumálum, þetta er ekkert einsdæmi. Þetta á við um málefni sjávarútvegs og þetta á við um stóriðju almennt, þ.e. framtíðarhugsanir á þeim vettvangi.

Ég vil aðeins fara í gegnum skýrslu sem nýlega kom út sem var unnin fyrir opinbera aðila um beina erlenda fjárfestingu á Íslandi. Í þeirri skýrslu er að finna orsök þess að hér er staðan eins og raun ber vitni. Hér er að finna ástæðu þess. Í þessari skýrslu er farið yfir fjölmörg atriði sem koma að málefnum beinnar erlendrar fjárfestingar á Íslandi. Það er talað um að ríkisstjórnin hafi langtímastefnu og aðgerðaáætlun fyrir beina erlenda fjárfestingu og hafi vald til að framfylgja, en það er sagt hér að stefnumótun sé ekki fyrir hendi enn sem komið er. Það er engin langtímahugsun. Það er engin forgangsröðun varðandi beina erlenda fjárfestingu. Óvissa varðandi orkumál og afsal yfirvalda á áherslum orkufyrirtækja er algjör. Fyrirkomulag við skipulagsmál kemur í veg fyrir hámörkun á samkeppnishæfi iðnaðarsvæða.

Það er líka talað um að fjárfestingarsviðið, þ.e. þeir sem eru að vinna á þessum vettvangi, hafi ekkert bakland til að útfæra stefnu sína, hafi ekkert bakland innan opinbera geirans. Þegar talað er um starfs- og lagaramma sem tryggi góða endurspeglun á stefnu yfirvalda kemur fram að fullur stuðningur yfirvalda er ekki fyrir hendi. Það eru engin bein tengsl milli fjárfestingarsviðs og ráðherra. Áfram heldur þessi svarta skýrsla. Hér er talað um að það skorti samstöðu og áherslur á stjórnmálalegum grunni. Þegar talað er um eindregin viðskiptaleg viðhorf við nálgun fjárfesta er talað um að fjárfestingarsviðið vanti mannafla og fjármagn, stefnu og stuðning, viðskiptahindranir séu til staðar þegar ný starfsemi sýni áhuga — þar er vitnað sérstaklega til gagnavera — stjórnsýslan sé veik og sein til ákvarðana og svari seint fyrirspurnum. Það er einnig gagnrýnt hve fáir starfsmenn starfa á þessum vettvangi fyrir okkur en þeir eru þrír ásamt fjórum útvörðum — sjö starfsmenn. Hins vegar erum við með í atvinnuþróunarfélögum og nýsköpun innan lands 137 starfsmenn.

Í þessari svörtu skýrslu, virðulegi forseti, er að finna ástæður þess að ástandið er eins og raun ber vitni. Þetta er skýrsla sem unnin er af virtu erlendu fyrirtæki í Hollandi. Hún tekur til samanburðar milli Íslands, Svíþjóðar, Möltu og Belgíu. Rauði þráðurinn í gegnum þessa skýrslu er falleinkunn fyrir stefnu og vinnubrögð íslenskra stjórnvalda, enda er hér einhver minnsta fjárfesting í gangi í sögu lýðveldisins. Fjárfesting í atvinnulífi hefur dregist stórkostlega saman og er einhver sú minnsta í sögu lýðveldisins. Afleiðingarnar eru skelfilegar, tækifæri fara forgörðum og það má segja um þetta allt saman að þetta sé stefna án innihalds. Þetta er ekkert annað en fögur orð sem hér eru lögð á borð af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna, stefna án innihalds.

Dómur sögunnar, virðulegi forseti, mun verða dapurlegur þegar kemur að því að dæma þessa ríkisstjórn. Einkunnin sem hún fær verður aum og mun sýna sig að hér er um að ræða einhverja verstu ríkisstjórn allra tíma gagnvart atvinnulífi. Það er mjög alvarlegt mál þegar hæstv. ráðherrar koma fram fyrir þing og þjóð og segja okkur að hlutirnir séu í lagi, það sé allt í lagi í uppbyggingu í íslensku atvinnulífi, atvinnuleysi sé að minnka, það sé fullt af tækifærum og góðir hlutir að gerast. Á sama tíma lýsa aðilar vinnumarkaðarins með ASÍ og Samtök atvinnulífsins í fararbroddi yfir fullkomnu vantrausti á störf og stefnu ríkisstjórnarinnar, og endurspegla í raun það sem kemur fram í þessari svörtu skýrslu.

Þetta mál sem við fjöllum um hér er að fá farsæla niðurstöðu til hagsbóta fyrir land og þjóð. Það er ekki ríkisstjórninni að þakka. Það er ekki ríkisstjórnarflokkunum að þakka. Þeir geta ekki eignað sér þetta. Ekki því samstarfi. Það er fyrst og fremst okkur sjálfstæðismönnum að þakka og þeim þingmönnum Samfylkingarinnar sem hafa barist með okkur í þessu máli, og við með þeim. Það er mjög sérstakt að hlusta á ræðu hv. formanns efnahags- og skattanefndar, hv. þm. Helga Hjörvars, og lýsingar á því hvernig þetta hefur gengið fyrir sig. Það er mjög ósanngjarnt þegar menn tala með þessum hætti og reyna að breiða yfir þann djúpstæða ágreining sem er á milli stjórnarflokkanna þegar kemur að atvinnumálum. (Gripið fram í.) Það hefði verið nær fyrir hv. þm. Helga Hjörvar að fara í þetta mál með sama sanngjarna hætti og hann gerði í síðustu viku þar sem hann ræddi málefni Icesave-samningsins nýja, eða þess tilboðs sem liggur á borðinu, í Kastljóssþætti við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson. Þar braut hv. þm. Helgi Hjörvar odd af oflæti sínu og þakkaði sjálfstæðismönnum og stjórnarandstöðunni sérstaklega fyrir að hafa staðið í lappirnar í því máli. Hann viðurkenndi að andstaða okkar í málinu hefði styrkt samningsstöðu Íslands og hefði leitt til þessarar miklu betri niðurstöðu sem nú liggur á borðinu. Ég held að það hefði verið nær fyrir hv. þm. Helga Hjörvar að setja þá kápu á axlirnar núna og þakka hér þeim sem hafa staðið í lappirnar í þessu máli og barist fyrir því að það mætti koma á. Það veit hann jafn vel og aðrir á þingi að tilbúin var breytingartillaga við þá tillögu sem kom frá fjármálaráðuneytinu sem hefði sennilega verið samþykkt vegna þess að meiri hluti er á þinginu fyrir henni. Það varð til þess að sá hópur Vinstri grænna sem heldur ríkisstjórninni og þinginu í gíslingu þegar kemur að atvinnumálum og uppbyggingu á þeim vettvangi gaf eftir seint í gærkvöldi. Það kemur núna í hlut hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og Álfheiðar Ingadóttur að flytja þessa breytingartillögu. Það er gott. Mér er í sjálfu sér alveg sama hvaðan gott kemur, það er ekki aðalatriðið hver flytur þetta mál, en það er mikilvægt að sannleikurinn sé sagður. Og það er mikilvægt að menn viðurkenni hver staðan er í þinginu vegna þess að á meðan menn tala eins og þessi ríkisstjórn talar, eins og hæstv. ráðherrar og stjórnarþingmenn, samanber hvernig hv. formaður efnahags- og skattanefndar Helgi Hjörvar talaði hér áðan, horfast ekki í augu við sannleikann og bera hann ekki á borð, komumst við ekki áfram. Verst er auðvitað ef þessir hv. þingmenn, virðulegi forseti, trúa sjálfir því sem þeir eru að segja. Þá er illt í efni.

Það er mikil ábyrgð sem fylgir því hjá hv. þingmönnum stjórnarflokkanna sem standa á bak við þetta samstarf, þá stöðnun sem við verðum hér vitni að. Þeirra er auðvitað ábyrgðin og þeirra dómur verður harðastur þegar litið verður í söguna.

En enn og aftur, virðulegi forseti, er fagnaðarefni að við skulum vera í þeim sporum að greiða þessum vaxtarsprota leið. Við skulum vona að á næstu mánuðum fari af stað fjárfestingar — og við erum að tala um í milljörðum króna — beinar erlendar fjárfestingar sem munu skapa hér mikla atvinnu og uppbyggingu á byggingartímanum og síðan verðmæt störf og verðmætar útflutningstekjur þegar fram líða stundir. Ég vona að við beinum þessum iðnaði eins mikið og við getum út á landsbyggðina þar sem þörfin er mest. Það hafa verið mínar áherslur þegar kemur að atvinnutækifærum þar sem við getum eitthvað ráðið um staðsetningar að við horfum til þess að reyna að byggja upp þau svæði sem verst hafa farið út úr þeirri atvinnuþróun sem hefur verið í landinu á undanförnum árum. Það er okkur öllum mikilvægt að halda jafnvægi í byggð. Þetta er kannski gott tækifæri og góður iðnaður til að fara með um landið. Ég vona að svo megi verða og óska þeim sem í honum starfa og ætla að stíga þessi fyrstu skref núna alls hins besta.