139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[22:14]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim ræðumönnum sem hafa komið upp og fjallað um þetta mál á ýmsa kanta og ætla sjálfur ekki að lengja umræðuna mikið heldur varpa upp örfáum atriðum.

Það eru að sjálfsögðu, eins og fram hefur komið, nokkrir jákvæðir þættir sem tengjast þessu frumvarpi. Það er ákaflega mikilvægt að koma fjárfestingu í gang í landinu, ekki síst að fá erlent fjármagn inn í landið. Það eru svo sem til íslensk fyrirtæki á þessum vettvangi á smærri skala og nýsköpun á stærri skala mun vonandi fylgja á eftir. Sannarlega hefur verið talað um að ýmsir möguleikar séu þar að lútandi og fjallað um að það sem fyrst og fremst þurfi í rekstri gagnavera, fyrir utan auðvitað rafmagnið og þá þekkingu sem fólk sem þar vinnur hefur, sé landrými. Þess vegna hefur allt landið verið undir og það skoðað á undanförum árum. Ýmsir staðir hafa verið nefndir, til að mynda á Reykjanesi, eins og við þekkjum, einnig Ölfusi og á bökkum Þjórsár þar sem orkan verður til að miklu leyti, Hornafirði, Blönduósi og víðar, svo einhverjir staðir séu nefndir.

Það er hins vegar svolítið óþægilegt að við skulum þurfa að ljúka þessu máli í hálfgerðum krampaköstum, svona á síðustu tveimur sólarhringunum áður en við förum í jólafrí. Þetta mál er búið að hafa langan aðdraganda, eins og margir hafa minnst á, og því skyldi maður ætla að búið væri að varpa upp öllum mögulegum og ómögulegum kostum og göllum á því. Því miður virðist því um að kenna að vilji í stjórnkerfinu, þ.e. hjá stjórnarflokkunum og þá kannski helst í fjármálaráðuneytinu og hæstv. fjármálaráðherra, hefur ekki verið nægur.

Það liggur við að nú séu á lofti misvísandi upplýsingar um við hvaða starfskjör sambærileg gagnaver starfa á evrópska markaðnum. Það er mjög mikilvægt, og ég vil leggja á það áherslu, að jafnræði gildi um þá fjárfestingarkosti og fyrirtæki sem vilja koma hér inn á markað, að þau standi jafnfætis öðrum löndum eins og t.d. Svíþjóð eða Hollandi svo einhver lönd séu nefnd sem við vitum að eru með gagnaver. Það er augljóst að í bransa þar sem um rafræna starfsemi er að ræða og gagnaflutning eru hefðbundin landamæri ekki til. Því getur vel verið rétt að hvergi í heiminum sé hægt að leggja virðisauka á græna orkunýtingu. Í kjölfarið gæti verið áhugavert að ræða það mál af því að mönnum hefur verið tíðrætt um og talað illa um álver. Í þeirri orkunýtingu er þó verulegur virðisauki en á gagnaver er virðisauki hvorki lagður á innfluttan búnað né hýsingu. Það væri líka áhugavert að taka upp þá umræðu hvort hýsing frá innlendum aðilum ætti þá ekki að njóta jafnræðis og hreinlega enginn virðisauki væri á starfseminni á Íslandi. Það er kannski eitthvað sem við þyrftum að skoða í framhaldinu.

Settir eru fyrirvarar um að ESA samþykki þetta og er gildistíma frestað. En fyrst og fremst er mjög mikilvægt að koma fjárfestingu í gang, koma atvinnulífinu í gagn. Þetta er áhugaverður kostur. Þetta er ný tegund af orkunýtingu sem mun kalla á frekari störf og krefjast m.a. menntunar á háu stigi. Að því leyti er þetta mjög áhugavert fyrir okkur til framtíðar og aldrei að vita hvað leiðir af því, ekki frekar en annarri orkunýtingu sem menn hafa gjarnan talað dálítið niður, sérstaklega margir núverandi stjórnarliðar. Ljóst er að af þeirri orkunýtingu hefur hliðarstarfsemi til að mynda jarðvarmavirkjunum, vatnsaflsvirkjunum og álverum alið af sér mikla þekkingu sem við Íslendingar búum yfir og við getum nú um stundir auðveldlega selt erlendis.

Ég vil ljúka máli mínu, frú forseti, á því að gleðjast yfir að við skulum þó alla vega taka eitt jákvætt skref í atvinnusköpun.