139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

196. mál
[22:26]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti sem er að finna á þskj. 513 ásamt breytingartillögum. Þar er hluti af þeirri auknu tekjuöflun sem gert er ráð fyrir á næsta ári og er hluti af forsendum fjárlagafrumvarpsins. Um er að ræða sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, bankaskattinn svokallaða, en gert er ráð fyrir að fjármálafyrirtækin skili í sérstökum skatti 1 milljarði kr. til þeirra miklu sameiginlegu verkefna sem við tökumst nú á við sem er að brúa bilið í ríkisfjármálum. Gert var ráð fyrir því í frumvarpinu að lagt væri á með þeim hætti að það næmi 0,045% af skuldum fjármálafyrirtækjanna, að frádregnum tryggðum innstæðum, og fjármálafyrirtæki og verðbréfafyrirtæki með umfang slíkra skulda undir 5 milljörðum kr. væru undanþegin skattinum. Samkvæmt þeim tillögum átti skatturinn að skila 1 milljarði kr. á næsta ári.

Eftir umfjöllun nefndarinnar og viðtöl við gesti sem fyrir hana komu, umsagnaraðila, er það niðurstaða okkar að gera tvær breytingar á því fyrirkomulagi sem lagt var til. Annars vegar að láta skattstofninn vera allar skuldirnar og draga ekki frá hinar tryggðu innstæður þannig að sami skattur leggist á allar innstæðurnar, m.a. í ljósi þess að fyrir liggur frumvarp um innstæðutryggingarsjóð sem gerir ráð fyrir því að þar verði ekki aðeins tekið gjald af hinum tryggðu innstæðum heldur innstæðum öllum og eins til einföldunar. Við þessa breytingu er prósentan hins vegar lækkuð úr 0,045% í 0,041% sem skilar einfaldlega sömu tekjum vegna þess að skattstofninn er breiðari. Auk þess taldi nefndin rétt að undanþiggja ekki fjármálafyrirtæki sem hafa skattstofn undir 5 milljörðum kr. enda væri það óeðlileg mismunun milli samkeppnisaðila og óheppilegt að hafa slík viðmið í skattalöggjöf. Aftur á móti á einfaldlega að undanskilja verðbréfafyrirtæki þar sem umfang efnahagsreikninga þeirra er svo lítið að hverfandi skatttekjur fengjust af þeim og það yrði fyrst og fremst umstang við innheimtuna. Með þessum breytingum leggur nefndin til að frumvarp þetta verði samþykkt.