139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[22:53]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hingað kominn til þess að vekja athygli á því að hér hefur verið tekið mjög stórt skref til þess að bæta lífsgæði í landinu. Við megum ekki gleyma því að þessi ákvörðun stjórnvalda er mikilvægur þáttur í minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Árið 2006 var þáttur vegasamgangna í losun slíkra lofttegunda fjórðungur af þeirri losun sem er hér. Nú er stigið stórt skref, ekki allt skrefið, og ég get tekið undir það með hv. þingmanni að við mættum svo gjarnan ganga lengra, en við verðum að hjálpa atvinnulífinu og almenningi að laga sig að þeim breytingum sem við tökum nú fyrsta skrefið að með því að færa skattlagninguna af jarðefnaeldsneytinu yfir á kolefnislosunina. Það hlýtur að vera áhugaverðara og sanngjarnara að miða skattlagninguna við hvað bíllinn mengar frekar en þyngd hans. Það má ekki gleyma því að þeir bílar sem menga mest munu engu að síður borga bifreiðagjöld og bifreiðagjöldin eru tengd kolefninu. Þeir sem menga mest munu líka finna fyrir því með bifreiðagjöldunum.

Hér er á ferð umtalsvert hagsmunamál fyrir okkur öll sem viljum vinna að því að það verði betra að búa á þessu landi og við nýtum styrkleika okkar á sviði náttúruverndar og ferðaþjónustu. Það er sjálfsagt skref að breyta skattlagningu á bifreiðar okkar. Við megum ekki gleyma því að við getum vissulega tekið stærra skref, en við skulum taka þetta skref fyrst, svo skulum við taka stærra skref.