139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[22:59]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er allt rétt sem hv. þm. Magnús Orri Schram sagði, það þarf að stíga skref inn í nýjan veruleika. Það er ekki hægt að menga hér endalaust, við höfum ekki nema eina jörð. Hugmyndin um að alltaf sé hægt að stækka kökuna gengur ekki upp til lengdar. Hins vegar hefði verið hægt að ná markmiði frumvarpsins með miklu einfaldari og skilvirkari hætti og með því að taka gjaldið beint af eldsneytinu. Það væri þá af jarðefnaeldsneyti en metanið yrði að sjálfsögðu undanskilið og rafmagnsbílar líka. Það mætti fella niður vörugjöld, það skiptir ekki máli í rauninni, þá yrðu engin áföll fyrir ferðaþjónustuna í þeim tilgangi, hún gæti bara flutt inn bíla og þeir yrðu notaðir á sumrin af ferðamönnum sem mundu borga kolefnisgjaldið í gegnum eldsneytið. Það væri allt saman til einföldunar, það er það sem ég hef reynt að tala fyrir í skattamálum. Ég styð skattstefnu ríkisstjórnarinnar að mörgu leyti eins og hún hefur verið sett fram með þrepaskiptu tekjuskattskerfi og meiri jöfnuði í skattamálum, en margt af því sem komið hefur fram hjá þessari ríkisstjórn er allt of flókið, óþarflega flókið. Mér finnst að menn mættu reyna að vanda sig betur þegar kemur að skattlagningu.