139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[23:14]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég tel að ég átti mig á hvað hv. þm. Pétur H. Blöndal er að fara. Það er alveg rétt að ef undanþágulistinn er skoðaður er hægt að færa rök fyrir því að þessi hugmyndafræði er hriplek, af því að þeir sem menga mjög mikið fá undanþágur. Það sem ég er að færa rök fyrir hér, og tek undir athugasemdir og röksemdafærslu frá Sniglunum, Slóðavinum, Ökukennarafélaginu og Biking Viking, er að það sama eigi að gilda um bíla og mótorhjól. Fyrst keppnisbílarnir fá ákveðna meðferð eiga keppnismótorhjólin að fá þá meðferð líka. Það er komið til móts við það hér og það er mjög gott. Það er verið að laga það en það er ekki verið að laga hlutina varðandi vörugjöldin almennt, að hafa bifhjólin í 15% af því að þau menga lítið. Það er ekki verið að koma til móts við kennslumótorhjólin eins og bílana og ekki heldur til móts við mótorhjólin sem eru leigð út eins og bílana sem eru leigðir út. Mér finnst það galli, mér finnst að það eigi að ríkja jafnræði hér á milli bifhjóla og bifreiða og sama hugmyndafræðin eigi að gilda fyrir bæði þessi ökutæki. (Gripið fram í.)