139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[23:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um vörugjald á bifreiðar og sitthvað fleira, bifreiðagjald og ýmislegt. Allt er þetta undir formerkjum koldíoxíðsmengunar sem flestir telja að valdi hitnun jarðar. Það er virkileg ástæða til að hamla gegn koldíoxíðsmengun ef svo er. Hún getur verið mjög hættuleg, sérstaklega fyrir þá íbúa jarðar sem búa á heitum svæðum, ef þau hitna enn frekar og breytast í eyðimerkur.

Bílafloti okkar er orðinn ansi gamall. Af hverju er það? Það er vegna þess að síðustu þrjú árin hefur varla verið fluttur inn bíll. Meðalaldur bifreiða er kominn upp í tíu ár og lengist enn um heilt ár á hverju ári vegna þess að innflutningur er nánast enginn nema til bílaleigna. Nýir bílar koma út á markaðinn í gegnum bílaleigur og þær þurfa að eiga þá í 18 mánuði í dag, held ég, það á reyndar að stytta það niður í sex mánuði. Þetta er vandinn. Úti í heimi er verið að þróa bifreiðar sem menga miklu minna en þær koma ekki hingað til lands. Floti okkar er með gamla tækni og kostar mikið viðhald o.s.frv. Þetta sagði ég allt saman í 1. umr.

Hér er farið mjög myndarlega af stað. Menn leggja koldíoxíðatómið í einelti. Í fyrsta lagi er bifreiðin sem flutt er inn skattlögð miðað við hvað hún komi til með að menga mikið, væntanlega að meðaltali, bifreiðarnar eru settar með handstýringu í alls konar flokka, þeir bifreiðaeigendur sem valda mikilli koldíoxíðsmengun eiga að borga mikið, þeir sem menga lítið eiga að borga lítið o.s.frv. Ég undanskil reyndar bifhjól eins og hér var bent á sem menga langminnst. Svo eru alls konar undanþágur sem í rauninni eyðileggja allt kerfið af því þær bifreiðar sem menga mest eru undanskildar. Þar með fór nú það.

Þegar búið er að skattleggja bifreiðarnar með vörugjöldum, þ.e. bifreiðarnar sem væntanlega verða ekki fluttar inn því það er eiginlega enginn innflutningur, er bifreiðagjaldið sjálft hækkað, misjafnlega mikið eftir tegundum. Þetta er náttúrlega gert, frú forseti, til að flækja kerfið af því að það er markmið í sjálfu sér að flækja kerfið. Það tekst mjög vel hérna. Það þarf að kenna alveg sérstakan kúrs í háskólanum sem heitir Vörugjöld á bifreiðar, það nám verður enn þá þyngra hjá blessuðum nemendunum og þyngist og þyngist með hverjum deginum sem ríkisstjórnin er við völd, undanþágurnar eru orðnar svo margar, flækjustigið er orðið svo hátt.

Þegar þetta er allt saman búið kemur að því að nota bifreiðina, bifreiðina sem ekki verður flutt inn því ég sé ekki að þetta breyti voðalega miklu um innflutninginn. Þá er bensín og olía skattlagt eins og áður og líta má á það sem eins konar koldíoxíðsskatt líka.

Frumvarpið einkennist af neyslustýringu. Menn ætla sér að láta borgarann gera þetta og hitt. Það er sennilega vegna þess að borgarinn hefur ekki vit á því sjálfur eða hann er ekki nógu félagslega þenkjandi eða umhverfislega þenkjandi til að láta að stjórn eða gera þetta sjálfur. Menn telja að hann hafi ekki þessa hugsjón og þess vegna er honum stýrt svona. Það eru sem sagt hugsjónaþenkjandi þingmenn sem hafa verið mjög meðvitaðir um umhverfismál sem ætla að láta borgarann flytja inn þessa bifreiðina en ekki aðra. Allt í lagi með það. Það er gott að hafa vit fyrir fólki, sérstaklega fullorðnu fólki. Mér finnst alveg sérstaklega ánægjulegt að sjá kannski þrítuga, fertuga þingmenn hafa vit fyrir fimmtugu fólki. En þetta er nú við lýði á þingi þessa dagana á öllum stigum, hvort sem það er sykurskattur, áfengi eða tóbak eða hvað það nú er. — Þetta á nú að vera hæðni.

Neyslustýringin felst í miklu flækjustigi. Þegar stjórnarmeirihlutanum í nefndinni var gerð grein fyrir því að þetta hefði alvarlegar afleiðingar fyrir þennan hóp eða hinn, fyrir landsbyggðina eða bílaleigurnar og svoleiðis, hvað gerir þá nefndin? Hún bara lagar það. Þessi bíll fer niður, þessi bíll fer neðar, landsbyggðin á að geta keypt þennan jeppa o.s.frv. Nefndin tekur til sinna ráða og stýrir þessu enn frekar, með höndunum að sjálfsögðu. Hér eru fluttar breytingartillögur og meirihlutabreytingartillögur sem formaður nefndarinnar flytur einn sér.

Ég ætla að ræða aðeins um metan, frú forseti. Ég held að metan sé skynsamlegt. Ég verð að halda það af því ég veit það ekki, ég veit ekkert hvað það kostar að safna metani uppi í Gufunesi eða hvar sem því er safnað. Ég veit bara að lögð var 90 millj. kr. leiðsla. Ég veit ekki hvort búið er að afskrifa hana eða hvernig það er eða hvaða áhrif hún hefur á verð metans. Ég veit líka að bændur geta framleitt metan. Ég hef ekki hugmynd um hvað það kostar hjá bændum að safna metani. Ég veit ekkert um það. Ég hef ekki fengið neinar upplýsingar um það og ég hugsa að ekki viti margir hvað metanið raunverulega kostar. En ef það hentar að safna því saman þá hefur það nefnilega tvöföld áhrif því talið er að metanið valdi 20 sinnum meiri mengun í andrúmsloftinu á einhvern mælikvarða heldur en koldíoxíðslosun. Það sem við gerum er að við losum 20 sinnum meiri mengun og notum metan í staðinn fyrir bensín sem veldur einu sinni meiri mengun. Það er því alveg rakið að nota metan ef þetta er allt saman rétt, þ.e. áhrifin á hlýnun jarðar og enn fremur að koldíoxíðsmengun og metanmengun valdi yfirleitt hlýnun jarðar. Það er kenning sem við verðum að trúa á.

Ég mundi nú segja að miðað við sömu hugmyndafræði ætti að niðurgreiða metan og niðurgreiða það mjög myndarlega og þannig að það kosti bara — ég veit ekki hvað það kostar raunverulega — hugsanlega væri með mikilli niðurgreiðslu hægt að selja það á jafnvel 20 kr. lítrann eða eitthvað svoleiðis. Þá mundu menn kaupa metanbíla og nota metan. Þetta mundi ég nú vilja en það er sennilega orðið of seint, það var ekki mikið hlustað á stjórnarandstöðuna í þessu máli, það var alveg á hreinu, ekki í efnahags- og skattanefnd.

Ég hef talað um bílaleigurnar sem lentu í ægilegu tjóni af því að litlu bílarnir voru gerðir verðlausir nánast eða verðminni. Þetta gerist líka hjá öllum almenningi sem á svona litla bíla, þeir verða miklu verðminni. Fólk sem tók lán til að kaupa lítinn bíl, það tapar en fólk sem tók lán til að kaupa stóran bíl, það græðir jafnvel. Þetta er svo merkilegt. Núna skilst mér að mikil sala sé í stórum bílum, það horfir jafnvel til vandræða því þeir eru ekki til, það næst ekki að flytja þá til landsins fyrir áramót með þeim hraða sem þarf því frumvarpið er þegar farið að virka. Ég veit það ekki nákvæmlega en ég hef heyrt af þessu.

Það sem menn eiga að gera, frú forseti, er hreinlega að elta kolefnisatómið sem heitir C. Eltum kolefnisatómið. Gómum það. Skattleggjum það alls staðar, á prímusa, viðarkol, sjávarútvegsfyrirtæki, á skipin, bílana, flugvélarnar. Það er víst bannað að gera það á flugvélarnar út af einhverjum samningum. Við eigum að skattleggja kolefnisatómið, þ.e. kolefnisatóm úr jarðefnaeldsneyti, því sem dælt er upp úr jörðinni. Þar verður aukning koldíoxíðsmengunar.

Kolefnisatómið sem verður til í jurtaolíu hefur áður bundist með sólarljósinu. Það vill svo til að koldíoxíðsmengun er ekki mengun, þetta er ljómandi góður áburður, nauðsynlegt uppbyggingarefni fyrir plöntur. Í jurtaolíu hefur kolefnisatómið bundist með aðstoð ljóstillífunar frá sólinni og koldíoxíðið eyðst og breyst í önnur efni, lífræn, sem brenna svo þegar olían er brennd. Þetta er því hringrás og skaðar ekkert. Við eigum því að skattleggja kolefnisatómið í jarðefnaeldsneyti og láta þar við sitja. Ef menn telja að borgarinn sé svo heimskur og siðlaus og lítið umhverfisvænn, á að skylda sölumenn bifreiða til að halda erindi yfir honum. Þeir eiga að segja við borgarann: Hér er ég að selja þér bíl, hann eyðir svo og svo miklu, hann veldur svo og svo mikilli koldíoxíðsmengun og mun kosta þig svo og svo miklu meira á mánuði en þessi bíll hér sem brennir minna. Sá bíll getur jafnvel verið stærri og flottari og dýrari. Þeir eiga að segja við manninn: Þetta mun kosta þig svo og svo mikið í rekstri yfir líftíma bílsins. Við eigum að flytja alla skattlagninguna yfir í eldsneytið. Þá borga erlendir túristar líka sinn skatt, taka þátt í því að minnka mengun jarðar enda eru það hagsmunir þeirra eins og okkar. Mér líst miklu betur á það.

Eitt er skrýtið í þessu dæmi og menn hafa ekki lesið. Hvað gerist þegar fyrirtæki á bíl sem fellur undir öll þessi skilyrði, búið að borga toll vegna koldíoxíðsmengunar, ákveðið bifreiðagjald o.s.frv. Hvað með þennan kostnað? Hann er dreginn frá skatti, frú forseti. Þar sem búið er að hækka skatt á fyrirtækjum upp í 20% þá endurgreiðir ríkissjóður 20% af gjaldinu. Skattkerfið vinnur því á móti öllum þessum fögru hugsjónum. Allur undanþágulistinn sem við ræddum hérna áðan, t.d. keppnishjól og keppnisbílar sem spóla svoleiðis að rykmökkurinn gengur upp í loftið eða brennslumökkurinn, ég veit ekki hvað það heitir þegar gúmmíið brennur þarna á brautunum — það fær undanþágu. Allur undanþágulistinn skemmir hugsunina í kerfinu. Þetta er ekki nema hálfgildingskerfi.

Svo gerist annað, frú forseti. Hvað með opinbera starfsmenn sem þurfa að keyra bíl vegna ferðalaga, eins og t.d. þingmenn? Þeir fá bifreiðastyrk. Sá bifreiðastyrkur hækkar þegar þetta hækkar allt. Það skiptir því þingmennina ekkert voðalega miklu máli hvort bíllinn er með þennan toll eða hinn eða hvaða eldsneyti hann gengur fyrir. Þeir fá ákveðið fyrir hvern kílómetra. Ríkið borgar þann kostnað niður svo það skiptir þá ekki máli hver koldíoxíðsmengunin er. Svona er þetta allt margslungið.

Frú forseti. Ef við viljum virkilega ná niður koldíoxíðsmengun þá eigum við að virkja. Ég fékk nefnilega svar hjá fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra fyrir nokkrum árum þar sem ég spurði hvað Kárahnjúkavirkjun sparaði mikla mengun. Hvað sparar Kárahnjúkavirkjun mikla koldíoxíðsmengun miðað við það að hún væri reist í Kína en ekki Íslandi, til að framleiða ál? Það vill nefnilega svo til að mannkynið þarf ál. Við breytum því ekki. Enginn leggur til að við hættum að nota ál. Álið þarf að framleiða einhvers staðar. Og álið veldur ákveðinni mengun við brennslu kolaskauta. Langmesta mengunin er í Kína vegna þess að þar er raforka framleidd með brennslu kola eða olíu eða gasi, í Sádi-Arabíu er t.d. notað gas við framleiðsluna. Og ál sem framleitt er í Kína veldur gífurlegri mengun. Ál sem framleitt er á Íslandi veldur sáralítilli mengun í hlutfalli við það.

Það kom í ljós í svari fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra að Kárahnjúkavirkjun sparaði mannkyninu koldíoxíðsmengun á við sexfalda eyðslu bifreiða og samgöngutækja á Íslandi. Kárahnjúkavirkjun sparaði mannkyninu sexfalda koldíoxíðsmengun bifreiða og samgöngutækja á Íslandi. Þetta segir mér aðeins eitt: Við eigum að virkja, við eigum að virkja til að hjálpa mannkyninu. (Gripið fram í: Nei.) Til að hjálpa mannkyninu. Það vill nú reyndar svo til að það skapar líka atvinnu á Íslandi, skortur er á henni, þannig að þetta hefði tvöfaldan kost í för með sér.

Við getum sagt: Landið er dreifbýlt. Við þurfum að brenna mikilli olíu fyrir bændur sem keyra hingað og þangað o.s.frv., til að flytja vörur og svoleiðis. Við skulum virkja í staðinn. Við skulum virkja í staðinn fyrir að menga. Ég hugsa að allt mannkynið muni þakka okkur fyrir það.