139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[00:12]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég á einhvern lífeyrissparnað og einhvern sparnað smávegis hér og þar, en ég á ekki mikið af verðtryggðum sparnaði. Ég er ekki efnaður maður. Ég skulda hins vegar verðtryggt, ekki sérlega mikið og sem betur fer ekki gengistryggt heldur þannig að persónuleg aðkoma mín að þessu er að öllu leyti hlutlaus. En verðtryggingin sem slík er eins og hún er útfærð á Íslandi mjög óeðlileg og óeðlilega yfirgripsmikil. Það þykir eðlilegt í venjulegum löndum, skulum við kalla það, að hægt sé að selja verðtryggð ríkisskuldabréf til mjög langs tíma til fjárfestinga, til langs tíma fyrir lífeyrissjóði og aðra sjóði, það er ekkert athugavert við það. En hér á Íslandi er nánast allt lánafyrirkomulagið verðtryggt í botn. Húsaleiga er verðtryggð, veiðileyfi eru verðtryggð. Það er ekki eðlilegt að ég skuli þurfa að borga meira af húsinu mínu vegna þess að tómatsósa hækkar í verði úti í búð. (Gripið fram í: Það eru skattar.) Það er mjög óeðlilegt fyrirkomulag. Það þarf að breyta því fyrirkomulagi. Það þarf að koma á eðlilegum fjármagnsmarkaði. Við erum að súpa seyðið af því nú eftir hrunið að hér hefur aldrei verið eðlilegur fjármagnsmarkaður. Því þarf að breyta. Það er grundvöllurinn að því að hafa eðlilegt hagkerfi.