139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[00:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Þessi lagasetning kemur í kjölfar hæstaréttardóms 16. júní sl. og er fyrst og fremst hugsuð til að bregðast við honum. Það kom fram í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, sem mælti fyrir meirihlutaálitinu áðan, að verið væri að tryggja jafnræði og réttlæti þeirra sem væru með verðtryggð lán og hinna sem væru með gengistryggð lán. Það liggur fyrir að í Hæstarétti hafa gengistryggð lán, eða svokallaðir bílasamningar, verið dæmd ólögleg.

Það hefur líka komið fram að til eru tugir ef ekki hundruð útgáfa af slíkum samningum og eins í sambandi við lánasamninga sem snúa að heimilislánum eða skuldum heimilanna. Þetta frumvarp er fyrst og fremst hugsað til þess að setja þau heimili sem eru með gengistryggð lán á svipaðan stað og þau sem eru með verðtryggð lán og nóg er nú samt áfallið að þurfa að bera alla þá vexti.

Það sem veldur mér vonbrigðum, og ég kom inn á hér í andsvari mínu áðan — og ég tel reyndar mjög mikilvægt, vil ítreka það, að hugsunin er góð með því að setja þetta svona fram, til þess að reyna að bæta úr réttarstöðunni, en ég er dálítið hugsi yfir því hvort þetta gæti hugsanlega skapað ríkissjóði eitthvert tjón, þ.e. skaðabótakröfu.

Þetta er kannski aðeins snúnara gagnvart fyrirtækjunum vegna þess að þau njóta ekki neytendaverndar eins og einstaklingarnir og mig langar aðeins að fara yfir það. Þegar menn sem ráku fyrirtæki tóku erlend lán var það gert á tvennan hátt. Menn fengu lánin greidd út í erlendum gjaldeyri, sem var þá lagður inn á erlenda gjaldeyrisreikninga, og síðan var greiddur út af þeim á gjalddögum sá gjaldeyrir sem var inni á þeim þannig að í raun og veru var um erlend lán að ræða hjá fyrirtækjunum eins og það er túlkað í dag. Og þetta var yfirleitt gert hjá stærstu fyrirtækjunum þar sem menn höfðu mikla veltu og höfðu starfsfólk og kunnáttu til að gera þetta.

Hjá mörgum litlum fyrirtækjum, bændum og einyrkjum í atvinnurekstri, var þetta gert á þann veg að menn fengu lánasamninga og á þeim stóð að lán, tugir eða hundruð milljóna að upphæð eða hvað það var, væri veitt í íslenskum krónum, en það var gengistrygging við erlendan gjaldeyri. Viðkomandi fyrirtæki fengu síðan greiddar út íslenskar krónur inn á íslenskan reikning. Og um það stendur deilan, og ekki búið að leiða hana til lykta, hvernig lagaleg skylda eða lagaleg óvissa hefur ekki verið útkljáð gagnvart þessu.

Það liggur því alveg klárt fyrir að það er ákveðin réttaróvissa hjá mörgum fyrirtækjum sem tóku erlend lán eða tóku íslensk lán með gengistryggingu við erlendan gjaldeyri. Í frumvarpinu og í nefndarálitinu er hnykkt á því að þegar lögin voru sett árið 2000 var það sérstaklega tekið fram — og ég vil fá að vitna, með leyfi forseta, í það sem stendur í frumvarpinu:

„Bent skal á að fjármálafyrirtækjunum var ljóst að gengistrygging var bönnuð og hvaða rök stóðu til þess. Hæstiréttur sér ástæðu til að árétta þetta í dómunum frá 16. júní 2010 með þessum orðum: „Þegar mælt var fyrir frumvarpinu á Alþingi kom einnig fram að samkvæmt reglum þess yrðu heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla felldar niður, enda eðlilegt, ef menn vildu miða fjárhæð skuldbindingar við erlendan gjaldmiðil, að hann yrði notaður beint. Í lögskýringargögnum liggur að auki fyrir að við meðferð frumvarpsins á Alþingi gerðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja þær athugasemdir í umsögn að ekki yrði séð hvaða rök væru fyrir því að takmarka heimildir til verðtryggingar í 14. gr. þess við tilteknar vísitölur, en næði frumvarpið fram að ganga yrði eins og eftir þágildandi lögum óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt á meðan ekkert bannaði að veita lán beint í erlendu myntinni. Frumvarpinu var í engu breytt að þessu leyti og varð það að lögum nr. 38/2001.““

Það stendur því mjög skýrt, og á því byggist dómur Hæstaréttar, að fjármálafyrirtækjunum var algjörlega ljóst að það að hafa gengistryggingu við erlendan gjaldeyri var óheimilt. Um það er ekki deilt. Ég segi því: Annaðhvort eru þá lánin ólögmæt eða ekki. Mér finnst ekki skipta máli hvort einhver maður keypti sér bíl eða hvort það var bóndi sem keypti sér traktor eða hvort það var einstaklingur sem byggði sér íbúðarhús eða einstaklingur sem byggði sér hús til að reka fyrirtæki í. Ég sé því ekki rökin fyrir því sem stendur hér aftar í frumvarpinu, sem mér finnst vera algjör mótsögn eins og ég kom inn á í andsvari mínu áðan, og veldur mér miklum áhyggjum að því var ekki breytt.

Eins og kom fram í breytingartillögum, og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir benti á það í framsögu sinni áðan, er búið að fella út 1. gr. sem var þó heimild fyrir fyrirtækin að taka erlent lán og vísað til þess sem kemur fram í umsögn frá Seðlabankanum. Það er að sjálfsögðu mjög skynsamlegt til þess að minnka gengisáhættuna og gjaldeyrisáhættuna í landinu, það er mjög skynsamlegt.

Einnig hefur verið rætt um þau vandamál sem sköpuðust í sveitarfélaginu á Álftanesi. Þar var sveitarfélagið með erlend lán, og reyndar mörg önnur sveitarfélög líka þó að sérstaklega illa hafi farið þar. Rætt hefur verið um það og þarf að skoða það mjög alvarlega í framhaldinu að setja mjög ströng höft á það hvað sveitarfélög megi skuldsetja sig í erlendri mynt. Það þarf að skoða það sérstaklega og eins að fyrirtæki sem ekki hafa tekjur í erlendum gjaldeyri geti ekki tekið erlent lán.

Eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu þegar hann mælti fyrir nefndarálitinu áðan stendur þessi endurskipulagning lána hjá fyrirtækjunum fyrir dyrum og við vitum að mjög mörg fyrirtæki eru illa sett og hafa ekki mjög sterka stöðu gagnvart lánastofnunum. Gæti það hugsanlega gerst að bankarnir gætu búið til nýja lánasamninga gagnvart fyrirtækjunum og látið þau hugsanlega falla frá þeim rétti með gengistrygginguna ef lánin hafa sannarlega verið ólögleg? Ef ekki er búið að skera úr um það gætu lánastofnanirnar hugsanlega þvingað fyrirtækin inn í nýja samninga á þeim forsendum að fyrirtækið fengi einhvern rekstrargrundvöll áfram og félli þá frá rétti sínum ef hann er fyrir hendi. Þetta er ákveðin spurning sem menn gætu hugsanlega staðið frammi fyrir. Við megum heldur ekki gleyma því að nú eru tvö ár liðin frá efnahagshruninu og því miður hafa mjög margir einstaklingar tapað fyrirtækjunum sínum. Það gæti margt verið í pípunum sem gerir það að verkum að þannig hefði ekki þurft að fara ef það hefði þá verið í gildi.

Virðulegi forseti. Ég vil víkja aðeins að því sem ég var að vitna í hér áðan. Mér finnst alveg hreint með ólíkindum þær fullyrðingar sem standa hér. Ég held að þeir sem skrifuðu frumvarpið skilji ekki hvað gengisvarnir eru, hafi ekki áttað sig á því — ekki viljandi, öll gerum við mistök.

Þar stendur, með leyfi forseta:

„Af umfangi gengistryggðra og erlendra lána til fyrirtækja er ljóst að ef þau teljast öll fela í sér ólöglega samningsskilmála og ekki kemur til lagasetning sem takmarkar tjón fjármálafyrirtækjanna á einhvern hátt munu eiga sér stað verulegir eignaflutningar frá fjármálafyrirtækjum til fyrirtækja, með mjög handahófskenndum hætti.“

Þetta er mjög athyglisvert. Hér er því beinlínis haldið fram að ekki megi færa ávinning fyrirtækjanna, sem þau hugsanlega eiga, frá fjármálafyrirtækjunum. En eigum við þá aðeins að rifja upp hvernig lánasafn fyrirtækjanna var fært á milli gömlu og nýju bankanna? Það var gert á þann veg að tekinn var 60% afsláttur af lánasöfnum hjá fyrirtækjunum frá gömlu bönkunum inn í nýju bankana, 60% afsláttur.

Það kom í ljós, þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra svaraði því fyrir nokkrum vikum, og búið var að gera margar tilraunir til að draga fram þessar upplýsingar, bæði með skriflegum fyrirspurnum og munnlegum. Menn virtu það ekki viðlits að reyna að svara því og fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra var með skæting og útúrsnúning. Núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra svaraði þessu mjög skýrt og skilmerkilega. Þess vegna vitum við það að — það eru nokkuð margir fundir í gangi hérna, frú forseti.

(Forseti (SF): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Það er í lagi að það séu tveir en verra ef þeir eru þrír eða fjórir.

Hvernig gerðist þetta, virðulegi forseti? Það gerðist þannig, eins og ég var að reyna að rekja hér áðan, að lánasöfnin voru færð með um 60% afföllum. Síðan hafa fjármálafyrirtækin gert hvað, á tveimur árum? Fjármálafyrirtækin hafa verið að hækka vaxtaálagið á fyrirtækin í landinu, bæði stór og smá. Þau hafa verið að tvöfalda vaxtaálagið og meira að segja sumir sparisjóðir eru nánast búnir að fjórfalda það. Fyrirtæki sem var með 1,7% vaxtaálag í sparisjóði hér — sem er nú í eigu ríkisins og er að yfirbjóða starfsmenn á hærri launum en hæstv. forsætisráðherra er með, vegna þess að það virðast vera til nógir peningar, það er bara hægt að skattleggja fyrirtækin meira — er með vaxtaálag upp á 8% tæp, á fyrirtæki sem er með öll sín lán í skilum og hefur alltaf verið með öll sín lán í skilum og með veð langt umfram eignir. Samt er þetta gert. Síðan en ekki síst eru vextirnir á allan höfuðstólinn hækkaðir.

Ef við setjum þetta í samhengi er kannski lán sem fyrirtækið skuldar upp á 1 milljarð keypt yfir á 400 milljónir, svo hækka þeir vaxtaálagið fjórfalt á allan höfuðstólinn sem var 1 milljarður. Í raun og veru er því kannski búið að áttfalda eða nífalda vaxtaálagið. Svo skilur fólk ekkert í því, margir hverjir, af hverju engin fjárfesting eða atvinnusköpun er í gangi. Þetta er ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að hlutirnir eru með þessum hætti.

Ég vil líka aðeins nefna fullyrðingu í frumvarpinu sem er röng, hún er algjörlega röng — og það er mjög dapurlegt af því að ég benti líka á það þegar málið var lagt fram að þessi fullyrðing væri röng.

Hún er svona, með leyfi forseta:

„Fyrirtækin eru oftar en ekki með raunverulegar eða keyptar gengisvarnir, eins og augljóslega má ráða af tölum um hlutfall sjávarútvegsfyrirtækja í þessum hópi skuldara samkvæmt tölunum hér að framan. Slík fyrirtæki hafa engu tjóni orðið fyrir og því bersýnilega ósanngjarnt að þau njóti einhvers ávinnings á kostnað viðsemjenda sinna vegna samninga.“

Mig langar að fara aðeins yfir hvað gengisvarnir eru og hvernig þær virka því að þeir sem hafa skrifað þennan texta vita ekki hvernig gengisvarnir virka. Gengisvarnirnar virka nefnilega þannig að þær eru á sjóðstreymi fyrirtækjanna. Þeir sem gátu keypt sér þannig gengisvarnir voru eingöngu þeir sem voru að selja í erlendri mynt. Það gerðist þannig að menn seldu og tryggðu gengisáhættuna gagnvart íslenskum krónum. Þeir seldu framleiðsluna fram í tímann, kannski eitt ár, jafnvel tvö ár. Þá var gengi evrunnar, af því að við förum þarna aftur til 2008, kannski 80 krónur. Þá seldu menn framleiðsluna fram í tímann og þá hækkaði gengið af því að þú varst búinn að setja skuldbindandi samninga gagnvart bankanum um að þú fékkst þá 82, 84 — það hækkaði eftir því sem þú framlengdir samninginn og hafðir hann lengri. Þá varstu að selja evruna fram í tímann, kannski eitt til tvö ár kannski 5, 6, 7% hærra en gengið var í raun og veru.

Hvað gerist svo? Síðan þegar efnahagshrunið kemur í árslok 2008 fór gengið upp í 200 kr., eins og við munum. Þá gerðist hvað? Þá voru fyrirtækin innilokuð með framvirka samninga upp á 82, 83, 84, 85 kr. Menn sjá því alveg hvernig gengisvarnirnar virkuðu. Þær virkuðu öfugt við fall bankanna. Þess vegna er það þannig að núna eru allir framvirku samningarnir, sem þetta byggir á, margir ef ekki flestir, inni í gömlu þrotabúunum. Það er út af þessu vegna þess að grunnurinn fyrir fyrirtækjunum og tekjuflæði fyrirtækjanna með sjóðstreyminu hrundi. Þess vegna voru þeir skildir eftir.

Því er sú alhæfing að halda því fram að sjávarútvegsfyrirtækin öll — og það eru margir tugir ef ekki hundruð sjávarútvegsfyrirtækja sem hafa engar tekjur í erlendum gjaldeyri þannig að þau gátu ekki haft þessar gengisvarnir nema á einn hátt, að kaupa sér gjaldeyri og leggja hann inn á bankabók. Og það gátu einstaklingar líka gert alveg eins og lítil fyrirtæki sem höfðu ekki tekjur í erlendum gjaldeyri. Þannig gastu tryggt þig.

Eigum við nú að rifja aðeins upp það sem kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis? Hvaðan var allur gjaldeyrinn kominn? Hann var nefnilega í eigu bankanna og sérstaklega eins sem var búinn að hirða allan gjaldeyrinn, geymdi hann og svo var gerð smáárás á krónuna til þess að fella gengið um 10% og það hækkaði gjaldeyrisforðinn þeirra um 10% og þá gátu þeir lagað ársfjórðungsuppgjörin sín. Það voru staðreyndir málsins. Svo skrifum við hér inn í texta að alls ekki megi láta fyrirtækin sem bankarnir felldu, við skulum ekki gleyma því — það voru ekki fyrirtækin sem felldu bankana, það voru bankarnir sem felldu fyrirtækin og við vitum núna af öllum subbuskapnum sem þar var inni. Þeir felldu krónuna og bjuggu til hagnað til að sýna fram á að gengi bréfanna þyrfti ekki að lækka af því að þeir voru búnir að hirða allan gjaldeyrinn.

Þegar menn voru að lána þessi erlendu lán til fyrirtækjanna og greiða út í íslensku krónum þá var það líka ein af forsendunum að menn væru ekki að skipta út gjaldeyrinum þannig að þeir hirtu mismuninn líka þar. Þannig tóku þeir líka nokkur hundruð milljónir á ári með því að skipta gjaldeyrinum bara upp, borguðu aldrei gjaldeyrinn, þeir borguðu bara krónur, gerðu samninginn og tóku svo skiptamuninn. Þannig gerðist þetta líka. Það er því hreint með ólíkindum að þetta skuli vera hér í frumvarpinu.

Það veldur mér miklum áhyggjum og ég er mjög ósáttur við að það standi hér í frumvarpinu, lögskýringargagni, að alls ekki megi færa eitthvað með handahófskenndum hætti frá bönkunum eða fjármálafyrirtækjunum til fyrirtækjanna — sem bankarnir felldu. Þeir vissu allan tímann að þessi gengistryggðu lán voru ólögleg. Heldur einhver að allir þeir bændur sem voru að kaupa sér traktora og eitthvað svoleiðis hafi gert sér grein fyrir því að lög frá 2001 væru ólögleg, með gengistryggingu við erlendan gjaldeyri? Nei, ég er ekki viss um að hægt sé að halda því fram. En fjármálafyrirtækin vissu það nákvæmlega vegna þess að þau gerðu athugasemd þegar lögin voru sett. En samt rekja menn sig svona áfram, og virðast á þeim stað enn þann dag í dag, að reyna að vernda fjármálafyrirtækin eina ferðina enn, hvort heldur sem það er gagnvart fyrirtækjunum eða heimilunum — þó að ýmislegt sé í farvatninu hvað varðar skuldavanda heimilanna sem á eftir að útfæra þá er mjög dapurlegt að lesa þetta, virðulegi forseti.

Það sem ég hef kannski líka miklar áhyggjur af og vil að komi hér skýrt fram er að ef það verður raunin að þetta muni loka einhverja inni þá tel ég og hef af því áhyggjur að ríkið og ríkissjóður gæti orðið skaðabótaskyldur og gæti fengið á sig kröfur vegna þess. Ég ætla svo innilega að vona að svo sé ekki en ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að mér finnst dálítið varhugavert að skoða þetta mál ekki betur. Þó að margir gestir hafi komið fyrir nefndina hefði ég talið heppilegast — ef fjármálafyrirtækin, sem eru reyndar í ákveðnum vanda vegna þess að kröfuhafarnir eiga hinn endann og hóta eflaust bankastjórunum að fara í mál við þá ef þeir gefa eftir kröfur sem hugsanlega er hægt að innheimta — ef það hefði verið hægt, og eflaust hefur það verið reynt, að fjármálafyrirtækin hefðu gengist undir að fara þessa leið án þess að þurft hefði að setja lög á það.

Það stendur því eftir að hugsanlega er mikil hætta á að ríkissjóður geti orðið skaðabótaskyldur út af setningu þessara laga en ég vona svo sannarlega að svo verði ekki.