139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[00:38]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og fleira. Frumvarpið hefur verið kallað gengislánafrumvarpið, en það hefur líka verið kallað spaghettíflækjan í efnahags- og skattanefnd. Þetta er að mínu mati eiginlega fullkomlega galið mál. Það kom vanbúið inn í nefndina og það fór vanbúið út úr henni.

Málið var tekið úr nefnd í kvöldmatarhléi í ósætti við minni hluta nefndarinnar. Síðar um kvöldið fengum við útreikninga á blöðum sem stemma nú ekki þótt einhverjar skýringar hafi komið á því. Hins vegar eru það bara útreikningar á hluta lánanna sem um ræðir, bílalána og lána til skemmri tíma, við erum ekki með nein dæmi um útreikninga á húsnæðislánum sem eiga þó að heyra undir þetta frumvarp. Það finnst mér mjög alvarlegt, eins vegna þess að það hafa fallið dómar um gengistryggð lán, bílalán, en það hafa ekki fallið neinir hæstaréttardómar um húsnæðislán og mér finnst mjög hæpið að ætla að sömu forsendur gildi um skammtímalán og langtímalán.

Fyrir nefndina hafa komið fjölmargir umsagnaraðilar og margir af þeim hafa bent á að þessi lagasetning stangist á við neytendalöggjöf og sé í hróplegu ósamræmi við 36. gr. c í samningslögum, nr. 7/1936, en þar segir:

„Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.“

Á þetta hefur ekki reynt í dómi um húsnæðislán fyrir Hæstarétti.

Vilji maður gagnrýna frumvarpið er af nógu að taka. Ég ætla þó að hemja mig að einhverju leyti (TÞH: Það var ólíkt þér.) en það er aðallega vegna þess að klukkuna vantar korter í eitt eftir miðnætti. Þetta er dæmi um þá „vönduðu“ lagasetningu sem hér fer fram. En það er ekki oft sem maður fær verulega slæma tilfinningu fyrir einhverju máli eins og nú og sú tilfinning hefur bara vaxið eftir því sem málið er skoðað meira og betur og fleiri umsagnir lesnar og talað við fleiri umsagnaraðila. Ég hef aldrei áður heyrt jafnmarga finna einu máli jafnmargt til foráttu.

Einn umsagnaraðili orðaði það svo að það væri hægt að höfða dómsmál vegna hverrar einustu greinar í frumvarpinu. Tilfinningin sem maður fær er sú að það sé viljandi verið að gera flókin mál enn flóknari til þess að kaupa tíma því að eins og allir vita mun allt loga hér í dómsmálum næstu árin. Sennilega fáum við ekki skorið endanlega úr þessum málum nema fyrir EFTA-dómstóli eða Evrópudómstóli eða einhverju slíku.

Í þessu frumvarpi finnst mér verið að umbuna lögbrjótunum, fjármálafyrirtækjunum sem buðu upp á lán sem þeir vissu að voru ólögleg, um leið og þeir rændu bankana innan frá og tóku stöðu gegn krónunni en neytendur, lántakendur, sitja uppi með tjónið. Það er ekkert réttlæti á Íslandi. Kostnaðinum við hrunið er velt yfir á almenning og skuldsett heimili og þau eiga að borga. Með þessu frumvarpi eru lántakendur í besta falli jafnilla settir og þeir sem eru með verðtryggð lán og það er ekki góð staða. Á meðan hækkar ríkisstjórnin skatta og gjöld á fólk sem hækkar vísitöluna enn frekar. Í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn minni kom fram að verðtryggð lán heimilanna hafa hækkað um 15,6 milljarða síðan þessi ríkisstjórn tók við bara vegna skattahækkana og aukinnar gjaldtöku ríkisstjórnarinnar.

Það gengur ekki upp. Ef þessi ríkisstjórn treystir sér ekki til þess að stuðla að jafnræði þegnanna og réttlæti í samfélaginu á hún bara að fara frá.