139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[00:53]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka efnahags- og skattanefnd fyrir góða vinnu við frumvarpið. Það hefur verið vandasamt verk og sérstaklega snúið. Þetta er flókið mál og líklega er leitun að leiðinlegri frumvarpstexta en í þessu ágæta frumvarpi, hann er dapurlegur og þurr og á köflum mjög torskilinn.

Nefndin hefur unnið afskaplega vel í þessu máli. Hún hefur fengið til sín nærri því 40 gesti og fjölda umsagna og mér þykir afar vel hafa verið haldið á málum af hálfu nefndarinnar. Markmiðið með lagasetningunni er enn sem fyrr að reyna að einfalda þá stöðu sem uppi er eftir að dómar Hæstaréttar féllu 16. júní og 16. september. Auðvitað er það staða sem við vildum mjög gjarnan vera án að þurfa að regla með þessum hætti lögskipti einkaaðila eftir á. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að við verðum að taka á stöðunni sem upp er komin með einhverjum hætti. Við þurfum að reyna að gera stöðuna eins einfalda og kostur er því að það er líka ófær aðstaða að heimilin bíði í óvissu um skuldastöðu sína í allt að 24 mánuði meðan dómsmál ganga um ólíka lánasamninga.

Í kjölfar hrunsins höfum við þurft að taka á málum með óvenjulegum hætti og þá hefur aðalatriðið verið, og dómur yfir okkur falist í því, hvort við höfum gert það með málefnalegum hætti og á efnislegum forsendum. Það gerðum við í tilviki neyðarlaganna, svo dæmi sé tekið. Þar brutum við ýmsar grundvallarreglur í viðmiðum um aðferðafræði í lagasetningu en það var nauðsynleg aðgerð til þess að ná þeim markmiðum sem að var stefnt og hún byggðist á efnislegum rökum.

Þess vegna skiptir miklu máli að við gætum að umgjörð málsins að öllu leyti, vöndum okkur og höfum hana eins hófstillta og kostur er og reynum að vinna málið eins vel og hægt er. Í þessu máli hafa sumir umsagnaraðilar komið fram með gagnrýni á stjórnarskrárþátt málsins. Ég held að það sé mikilvægt að halda því til haga að þær breytingar sem gerðar hafa verið á málinu í meðförum þingsins hafa verið til þess fallnar að styrkja málstað löggjafans hvað það varðar og setja traustari stoðir undir málatilbúnaðinn. Það hefur fyrst og fremst verið gert með því að einfalda málið enn frekar, taka út ákvæði er lutu að fyrirtækjum þannig að staða fyrirtækjanna verður þá algjörlega eins og var áður en frumvarpið kom fram og ekki hróflað við henni á einn eða neinn hátt. Frumvarpið var algjörlega afmarkað við grundvallarmarkmiðin sem eru að tryggja sanngjarnari uppgjörsreglur í kjölfar dóma Hæstaréttar, sem er ómótmælt að löggjafinn þarf að gera. Það þarf að setja uppgjörsreglur til þess að auðvelda sanngjörn uppgjör og til þess að tryggja að þeir sem raunverulega urðu fyrir tjóni njóti ávinningsins af endurgreiðslunum. Hins vegar þarf að kveða á um heimild til handa fólki — heimild, ekki skyldu — til að flytja gengistryggð íbúðarlán úr slíkum kjörum yfir í innlend kjör, ef fólk svo kýs.

Sú afmörkun hefur verið skýrð, hún er mjög þröngt skilgreind einmitt til að vekja ekki efasemdir um stjórnskipulegt gildi laganna og til þess að undirstrika að þeim er einungis ætlað að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að greiða úr óreiðu og greiða fyrir efnahagslegri endurreisn. Það þarf að koma á vissu þar sem nú ríkir óvissa og með umbreytingarheimildinni fyrir gengistryggð íbúðalán á að gefa fólki sem á í verulegum vanda vegna mjög mikillar hækkunar gengistryggðra íbúðalána kost á að koma þeim í hóflegra og eðlilegra form því að enginn deilir um það lengur að gengistryggð íbúðalán eru ekki heppilegur kostur fyrir húsnæðisöryggi fólks.

Við þurfum líka að horfa til þess hver valkosturinn er. Það er auðvitað valkostur að gera ekkert og segja við fólk sem verið hefur í óvissu um skuldastöðu gengistryggðra íbúðalána allt frá hruni að það skuli áfram vera í óvissu í allt að 24 mánuði. Við vitum hvað áframhaldandi óvissa kostar. Við sjáum að efnahagsleg endurreisn hefur ekki gengið fram með þeim hætti sem við vonuðum og það er almennt viðurkennt að alvarlegasta efnahagsvandamálið sem við eigum nú við að glíma er skortur á fjárfestingu vegna þess að ekki hefur verið unnið úr skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Of mikil skuldsetning heimila og fyrirtækja er skilgreind sem höfuðefnahagsvandamálið jafnt í nýlegum greiningum Seðlabankans sem og í greiningum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í gær var ég á löngum fundi með sendinefnd OECD sem er að undirbúa úttekt sína á Íslandi og enn og aftur er það of mikil skuldsetning heimila og fyrirtækja sem þeir horfa á sem stærsta vandamálið. Við erum auðvitað að vinna að því að eyða óvissu og koma fyrirtækjunum af stað, koma löggjöfinni í gegn til að greiða fyrir því að heimilin fái skuldastöðu sína á þurrt. Allt miðar það að því að við náum nauðsynlegum hagvexti á næsta ári til að gera okkur mögulegt að auka fjárfestingu í landinu, skapa fleiri verðmæti, skapa ný störf, koma í veg fyrir að við þurfum enn frekar að skera niður í ríkisútgjöldum og greiða okkur leiðina til sjálfbærs hagvaxtar á næstu árum.

Það eru margir sem bíða eftir þessari löggjöf, það liggur t.d. fyrir að til hennar er vísað í nýlegu samkomulagi ríkisstjórnarinnar við Samtök fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóðina. Þar er beðið eftir löggjöfinni til að menn geti komist að niðurstöðu um við hvað beri að miða þegar kemur að því að lækka skuldsetningu fólks niður í 110% af verðmæti eigna. Þess vegna verður það að liggja fyrir og því verður ekki frestað. Það er líka ljóst að löggjöfin er í samræmi við það sem almennt er gert á markaðnum núna. Landsbankinn er byrjaður að bjóða kjör af þessum toga, Íslandsbanki er byrjaður að bjóða kjör af þessum toga, forsvarsmenn Samtaka fjármálafyrirtækja tóku fram í viðtölum við fjölmiðla í Þjóðmenningarhúsinu þegar gengið var frá samkomulagi við ríkisstjórnina að þeir teldu kostnað fjármálafyrirtækjanna af þessari umbreytingu með öðrum kostnaði sem fjármálafyrirtæki væru að axla vegna umbreytingar skulda heimilanna, þannig að það er alveg ljóst að fjármálafyrirtækin og lífeyrissjóðirnir eru farin að vænta þess að þessi umbreyting eigi sér stað. Hún er því í samræmi við það sem leiðir af rökréttri túlkun á dómi Hæstaréttar og eðlilegum framgangi mála að virtum sanngirnissjónarmiðum og þeim mikilvægu efnahagslegu hagsmunum sem liggja að baki hraðri úrlausn málanna.

Í umræðunni hafa menn drepið á nokkrum atriðum og ég ætla sérstaklega að nefna að eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði fá vissulega ekki allir sömu úrlausn, þ.e. frumvarpið skilgreinir þá sem njóta réttarins þröngt, það þarf að vera um að ræða gengistryggt íbúðarlán sem uppfyllir skilyrði til greiðslu vaxtabóta og hefur sannanlega verið tekið í tengslum við kaup eða endurbætur á íbúð. Auðvitað vildi maður helst hafa andlagið víðara og geta veitt fleirum þennan rétt en það er mikilvægt að afmarka umfangið þröngt þegar við viljum vera viss um að löggjöfin standist stjórnarskrárvarin eignarréttindi.

Að síðustu ítreka ég þakkir til nefndarinnar og þakka góða samvinnu þar, sérstaklega vil ég geta verkstjórnarhlutverks hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur og framsögumanns meiri hlutans.