139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[01:07]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda á að þó að Hæstiréttur hafi að vísu verið að túlka eignarréttarákvæðið mjög sterkt get ég ekki betur séð en að jafnræðisreglan komi samt framar í röðinni í stjórnarskránni. Menn virtust alla vega telja að hún væri fólki ofar í huga þegar þeir voru að raða þessu niður í stjórnarskránni.

Það sem ég vil benda á hvað varðar tillögu talsmanns neytenda, Gísla Tryggvasonar, er að það má segja að tillaga hans hafi verið ákveðin blanda af þeirri tillögu sem ráðherrann er sjálfur að leggja til varðandi fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja og því sem hefur verið komið á í samráði við fulltrúa atvinnurekenda og kröfuhafana sem eru þá Samtök fjármálafyrirtækja. Svo við erum annars vegar með ákveðinn gerðardóm eins og úrskurðarnefndin virðist vera sett upp og síðan tillögur hans þar sem ætlunin var að niðurstaða gerðardóms færi inn sem lagatillaga eða frumvarp í þingið og væri síðan samþykkt af okkur, þannig að það væri sem sagt hægt að taka alla lánasamninga sem væru úti og gætu hugsanlega fallið undir gengistrygginguna.

Með þessu frumvarpi erum við að skilja eftir stóran hluta, stærsta stabbann af lánum sem gætu hugsanlega fallið undir gengistryggingarákvæðið. Stærsti stabbinn er náttúrlega fyrirtækjalánin en það er líka slatti af einstaklingslánum þannig að þar hefðum við tekið á þessu með jafnræði. Síðan höfum við líka gætt einmitt að eignarréttinum því að þar hefðu þá bæði kröfuhafar og lántakendur komið að því að koma með tillögur sem ættu að geta komið til móts við bæði sjónarmiðin. Það ætti líka að koma til móts við það sem bent var á, að ekki væri hægt að ráðstafa þessu nema með samkomulagi, því að hérna er greinilega þegar komið fordæmi um að hægt sé að ná samkomulagi á milli þessara hagsmunaaðila með þeirri tillögu sem liggur fyrir í frumvarpinu um úrskurðarnefnd vegna fyrirtækja.