139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[01:09]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, sú úrskurðarnefnd mun hins vegar að sjálfsögðu ekki dæma á einhverjum óljósum forsendum. Sú úrskurðarnefnd mun meta mál á grundvelli efnislegra viðmiða sem samkomulag liggur fyrir um.

Vandinn er ósköp einfaldlega sá að vilji kröfuhafa hefur ekki staðið til þess að afsala sér réttindum með þessum hætti. Þeir hafa ekki verið til viðræðu um að skipa gerðardóm sem fái völd til að endurskilgreina upp á nýtt eignarréttindi þeirra með einhverjum hætti. Það hefur alltaf verið grunnþáttur í tillögum talsmanns neytenda og það er gallinn við þær að þær ganga bara ekki upp út frá þessum þætti.

Samningaleið er nauðsynleg og við höfum náð samningum um einstaka þætti þessara mála við fjármálastofnanir. Það hefur hins vegar líka byggst á því að þær hafa ákveðið svigrúm og við höfum þá verið að þvinga aðrar fjármálastofnanir sem ekki hafa sama svigrúm til að fylgja þar eftir. Það hefur oft verið þrautin þyngri. Við höfum verið að þvinga lífeyrissjóði og þrýst á þá að taka þátt. Þeir hafa ekki samkvæmt lögum neina varasjóði, skilgreinda sem slíka, sem gera þeim kleift að mæta töpum. Það hefur verið flókið fyrir þá. Það er því mjög erfitt og flókið að finna almennar reglur með samkomulagi til þess að fá kröfuhafa til að samþykkja að lækka kröfur sínar á hendur skuldurum. Í því frumvarpi sem hér er til umræðu höfum við reynt að feta ákveðinn vandrataðan meðalveg í þessu efni og ég held að okkur hafi tekist þokkalega til þó svo að maður vildi gjarnan oft geta gengið lengra.