139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[01:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Það getur verið að mælendaskráin hafi eitthvað ruglast en við erum hér í 2. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar. Þegar við ræddum það fyrr hafði myndast nokkuð löng mælendaskrá því að það er nokkur áhugi á þessu máli og var því umræðu frestað.

Í nefndaráliti meiri hluta heilbrigðisnefndar kemur fram, svo ég fari aðeins yfir málið, að Sjúkratryggingar Íslands voru stofnaðar með lögum 1. október 2008 og áttu að koma til framkvæmda í áföngum, síðasti áfanginn átti að taka gildi 1. janúar árið 2010. Það var ljóst á þeim tíma, fyrir ári síðan, að það mundi ekki nást og var því frestað um ár og nú hefur sem sagt verið lagt fram frumvarp þess efnis að fresta gildistöku þessa síðasta ákvæðis til bráðabirgða til 2014 og að ráðuneyti heilbrigðismála sé heimilt að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa og hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila.

Þetta þótti nefndinni nokkuð langur tími og eins kom það fram í umsögnum. Í frumvarpinu var kveðið á um að fresta ætti gildistökunni til 2014 en í meðferð heilbrigðisnefndar breyttist sú dagsetning og breytingartillagan hljóðar þannig að heimilt sé að fresta gildistökunni til 2014 en það þyrfti ekki að vera svo lengi.

Frá því að við skildum við málið hér hefur það verið rætt áfram og í raun náðst samkomulag um að í staðinn fyrir að hafa þessa heimild á frestun til 2014 yrði frestunin aðeins í eitt ár til viðbótar. Staðan er því sú núna að breytingartillagan sem nefndin lagði til og kemur fram í nefndarálitinu er dregin til baka af meiri hluta nefndarinnar og því mæli ég fyrir nýrri breytingartillögu á þskj. 580, 191. mál, sem hljóðar svo:

„1. Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 2014“ í 1. gr. komi: 1. janúar 2012.

2. 2. gr. orðist svo: 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögunum orðast svo: Fram til 1. janúar 2012, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 56. gr., er ráðherra heimilt að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa og hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila.“

Þetta er niðurstaðan eftir að farið hefur verið betur yfir málið. Það þótti nokkuð langur tími að fastsetja þetta til 2014, það var því opið að hafa heimild til að fresta ákvæðinu til 2014. Ég vona að næsta ár verði nýtt vel til að endurskoða starfsemina, annaðhvort til að færa hana í það horf sem lögin segja til um eða til að vinna að þeim breytingum sem til þarf ef það á ekki að verða.

Ég vona að með þessari breytingartillögu náist góð sátt í málinu og læt ég máli mínu lokið.