139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[10:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði um þann fyrri bandorm sem felur í sér stefnu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að skattamálum. Við framsóknarmenn höfum ekki stutt þá stefnu frekar en svo margir aðrir í íslensku samfélagi þannig að við munum ekki styðja þetta mál, eins og fram kom við fjárlagaumræðuna sem við höfum nýlega lokið við.

Hins vegar legg ég til að við styðjum það sem lýtur að auknum vaxtabótum handa skuldsettum heimilum og er í breytingartillögum meiri hlutans. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að koma þurfi betur til móts við skuldug heimili í landinu og það væri þess vegna stílbrot ef við mundum ekki greiða atkvæði með 6 milljarða auknum vaxtabótum handa skuldugum heimilum. En ég vil láta þess getið að við höfum ítrekað bent á að ekki er nóg að gert fyrir þau heimili í landinu.