139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[10:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði um stuðning til nýsköpunarfyrirtækja. Á síðasta ári, síðasta haust, voru gerðar breytingar á lögum um nýsköpunarfyrirtæki. Þeim er hér öllum umturnað. Óhætt er að segja að búið sé að endurskrifa öll þau lög sem skrifuð voru í fyrra.

Ég er þeirrar skoðunar að það fari afar illa á því að láta þetta vera inni í bandormi, þetta eiga að vera sérlög og menn hefðu átt að vinna þau betur en hér er gert. En þetta er mjög jákvætt fyrir utan eitt, skattfrádráttur til hlutafjárkaupa í nýsköpunarfyrirtækjum sem settur var inn í fyrra er nú tekinn út vegna kvartana frá ESA. Ég sakna þess mjög að við höfum ekki getað hugsað upp hvernig við gætum veitt þennan skattfrádrátt. (Forseti hringir.) Ég kalla til samnefndarmanna minna og bið um að við vinnum að þessu máli strax eftir áramót. Ég segi já.