139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[10:39]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um nýsköpunarhluta þessa bandorms. Við tökum hér gott skref til að styrkja nýsköpunariðnaðinn í landinu, sprotafyrirtækin okkar. Við lækkum gólf, við hækkum þök og víkkum heimildir til að mest spennandi fyrirtækin okkar geti fengið skattastuðning frá ríkinu. Það er vel.

Því miður þurfum við að taka eitt skref til baka hvað snertir skattafslátt til einstaklinga um kaup á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum. Það sleppur ekki í gegnum nálarauga eftirlitsstofnana. En ég vil taka undir orð hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar um að þeirri vinnu er ekki lokið í efnahags- og skattanefnd. Við munum halda áfram að reyna eftir megni að gera almenningi kleift að styðja við mest spennandi fyrirtæki okkar með þátttöku í hlutabréfaeign.