139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[10:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þessu máli kristallast sá ágreiningur sem er innan ríkisstjórnarflokkanna þegar kemur að framtíðarsýn í atvinnumálum. Það eru því mikil öfugmæli þegar hv. formaður efnahags- og skattanefndar, Helgi Hjörvar, talar um að eindreginn pólitískur vilji hafi verið til að greiða leið starfsemi gagnavera í landinu. Um það er búið að takast á í 18 mánuði og þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur ekkert gengið vegna þess djúpstæða ágreinings í atvinnumálum sem er á milli ríkisstjórnarflokkanna.

Ég vil nota tækifærið og þakka alveg sérstaklega þeim þingmönnum Samfylkingarinnar sem unnið hafa með okkur sjálfstæðismönnum að framgangi þessa máls og komið því áfram, alveg sérstaklega þeim sem starfa í hv. iðnaðarnefnd. Þessi ríkisstjórn kemur ekki góðum málum í gegnum þingið sem tengjast uppbyggingu í atvinnulífi. Má segja að þrátt fyrir fögur fyrirheit sé stefna hennar algerlega án innihalds í þessum málaflokki.