139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[11:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ámælisvert hve langan tíma vinnsla þessa máls hefur tekið og ber það þess glöggt vitni að mikil togstreita er innan ríkisstjórnarflokkanna um atvinnustefnuna. Það er líka ámælisvert að svona máli er troðið í gegn undir miklum þrýstingi á síðustu dögum þingsins þegar miklar annir eru í sambandi við fjármál og tekjur landsins. Engu að síður er um að ræða mjög jákvætt atvinnumál og ég styð það heils hugar og hefði gjarnan viljað geta gert það miklu fyrr. Það þarf hins vegar að huga að ýmsum þáttum er tengjast jafnræðismálum innlendra og erlendra aðila.

Það er líka umhugsunarefni, ekki síst í ljósi þess að hér er um nýsköpun að ræða í svokallaðri grænni orkunýtingu og eins varðandi fyrstu skrefin sem við tökum þar, að allur virðisauki skuli vera tekinn af þeirri starfsemi. Ef við tölum um þá sem mest hafa gagnrýnt stóriðjuna — það skyldi þó ekki vera að það væri meiri virðisauki af álverum en af grænni orkunýtingu? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Mér finnst það umhugsunarefni en ég styð þetta mál heils hugar. (Gripið fram í.)