139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[11:17]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það mál sem við ræðum hér, vörugjöld á bifreiðar, mun til lengri tíma litið hafa þau áhrif að kostnaður íbúa landsbyggðarinnar verður meiri til bílakaupa en annarra landsmanna. Sem betur fer náðist það fram að tímabundin breyting var gerð í þeim efnum þannig að á næsta ári munu reikningar landsbyggðarfólks vegna bílakaupa ekki hækka en svo þegar fram í sækir þurfa menn á þeim landsvæðum að greiða hærri reikninga vegna þess. Ég vil minna á í því sambandi að fólk í hinum dreifðu byggðum borgar í dag þriðjungi meira fyrir rekstur bifreiða sinna en fólk á suðvesturhorni landsins. Enn er verið að auka á óréttlætið hvað þessi mál varðar til lengri tíma litið. Þess vegna mun ég ekki styðja þetta frumvarp, en ég mun hins vegar greiða atkvæði með þeim breytingartillögum (Forseti hringir.) sem til bóta horfa í þessu gallaða frumvarpi að þessu leyti.