139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

raforkulög.

204. mál
[12:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum að fara að greiða atkvæði um frestun á aðskilnaði sérleyfisstarfsemi og samkeppnisstarfsemi í orkufyrirtækjum. Þetta er í þriðja sinn sem á að fresta þessari aðgerð og er það að beiðni Orkuveitu Reykjavíkur. Við leggjumst eindregið gegn því að Orkuveitan fái frestun, bæði vegna þess að samkeppnisaðilarnir hafa þegar gengið frá málum sínum og hafa haldið því fram að Orkuveitan hafi gengið á lagið hvað þetta varðar. Því er haldið fram að samkeppnislög hafi verið brotin með nýorðnum hækkunum á flutningi og framleiðslu eða dreifingu á framleiðslu raforku innan Orkuveitu Reykjavíkur, eins og við töluðum reyndar um í ræðu að gæti gerst. En nú höfum við fengið það staðfest (Forseti hringir.) að Samkeppniseftirlitið er með til rannsóknar vegna brota á samkeppnislögum sem átt hafa sér stað í skjóli þess (Forseti hringir.) að ekki er búið að aðskilja sérleyfis- og (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Tíminn er útrunninn.)

samkeppnisstarfsemina. (Forseti hringir.) Við erum á móti þessu máli (Forseti hringir.) vegna neytenda.