139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[12:28]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það má kannski segja að aðflugið að samþykkt brunavarnalaga hafi verið dálítið langt. Lendingin held ég hins vegar að verði góð. Sá sátt sem náðist um tillögu mína í nótt, og sem aðrir eru meðflutningsmenn á, sýnir hvað þetta er góð sáttatillaga. Hún gerir ráð fyrir að umhverfis- og samgönguráðherra setji ákveðna vinnu í gang sem lögð verður fyrir nefndina og málinu ljúki á þann hátt.

Virðulegi forseti. Skipulag viðbúnaðarþjónustu á flugvöllum hefur verið mjög góð sl. 50 ár og ég er alveg sannfærður um að hún verður það áfram. Þar á Flugmálastjórn heiður skilinn fyrir aðkomu sína og eins eftir að þessu var skipt upp og Flugmálastjórn varð stjórnsýslustofnun.

Það er gaman að því, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að þessi breytingartillaga sem flutt er af fimm, sex hv. þingmönnum er sáttatillaga um það. Jólin eru fram undan, hátíð ljóss og friðar (Forseti hringir.) og líka kærleika. Hér er kærleikstillagan komin fram.