139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

fjarskipti.

394. mál
[12:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Örstutt um þetta. Við ræðum um auðlind sem felst í takmörkun, nákvæmlega eins og kvóti í sjávarútvegi og mjólkurkvóti í landbúnaði og fleiri kvótar. Þarna er verið að takmarka aðgang manna að ákveðnum gæðum sem í þessu tilfelli eru tíðnisvið. Ég geri ráð fyrir að mjög mikil eftirspurn verði eftir þessum tíðnisviðum innan mjög skamms tíma vegna þess að mikið af fjarskiptum, t.d. símasamskipti og annað slíkt, fer í gegnum þetta.

Hér er verið að vinna mjög hratt og kannski er hér of lítil fyrirhyggja. Þetta er enn eitt dæmið um að menn eiga að hafa séð hlutina fyrir og komið fram með frumvarpið fyrr þannig að við hv. þingmenn gætum rætt það almennilega. En þetta ákvæði er til bráðabirgða þannig að ég vona að ríkisstjórnin, Alþingi og umhverfisnefnd fari að ræða þetta í þaula og átti sig á því að þetta er enn ein auðlindin sem við þurfum að ákveða hvernig er úthlutað.