139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

framhaldsfundir Alþingis.

[15:02]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra góðar kveðjur. Ég býð hv. alþingismenn velkomna til vetrarþings að loknu jólahléi og óska þeim og starfsmönnum Alþingis gleðilegs árs og þakka fyrir gott samstarf á liðnu ári.

Ég get ekki annað en lýst sérstakri ánægju með þann góða samstarfsanda sem einkenndi störf Alþingis á haustþinginu. Þingmenn eiga allir þakkir skildar fyrir að hafa lagt sitt af mörkum til þess að okkur tækist að standa við starfsáætlun Alþingis. Ég bind vonir við að þessi góði samstarfsandi einkenni störf okkar áfram á því þingi sem nú fer í hönd.

Þjóðin hefur á síðustu tveimur árum farið í gegnum erfiða tíma og Alþingi og stjórnvöld hafa þurft að taka fjölmargar ákvarðanir til að leysa þann vanda sem við höfum staðið frammi fyrir. Vitaskuld verður seint sátt í samfélagi okkar um allar þær ákvarðanir sem taka þarf við þessar aðstæður. Það má því búast við að vindar muni áfram blása um þessa stofnun meðan við erum að vinna okkur út úr þeim þrengingum sem bankahrunið olli landsmönnum. Ég vænti þess að við berum gæfu til að leysa með farsælum hætti úr þeim málum og að störf okkar verði Alþingi til sóma.