139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

kjarasamningar og endurskoðun fiskveiðistefnu.

[15:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er algjör veruleikafirring hjá hæstv. forsætisráðherra að telja að hægt sé að halda grundvallaratvinnugrein okkar Íslendinga, sjávarútveginum, í einhverri óvissu og uppnámi en fara síðan fram á það af aðilum vinnumarkaðarins að þeir gangi frá kjarasamningum við þær aðstæður. Þetta er fullkomin veruleikafirring. Það er alveg sama hversu ósátt hæstv. forsætisráðherra er við það að menn geri kröfu um að fá vissu um það rekstrarumhverfi sem þeir búa við í þessari grundvallaratvinnugrein, hún mun ekki ná fram vilja sínum. Það verður ekki þannig, því miður.

Það sem mig undrar er að hæstv. forsætisráðherra virðist ekki geta sleppt einu einasta tækifæri til að valda viðbótaróvissu um þetta mál. Staðreyndin er sú að það er miklu víðtækari sátt um öll grundvallaratriði þessa máls en forsætisráðherra lætur í veðri vaka. Það er sátt um það að fara samningaleiðina, að byggja þetta á langtímasamningum, að taka af skarið um skýrt eignarhald ríkisins á auðlindinni (Forseti hringir.) og forræði hennar til að stýra fiskveiðistjórnarmálum eftir ákvörðunum Alþingis en forsætisráðherra getur ekki sleppt tækifæri til að setja málið enn og aftur í uppnám.