139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

fréttir af breskum lögreglumanni og aðgerðasinna.

[15:27]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í bresku dagblaði sem heitir Guardian hafa í þessari viku birst fréttir um að á vegum breskra stjórnvalda hafi verið flugumaður í íslenskum umhverfissamtökum. Mönnum getur fundist hvað sem þeim sýnist um þau samtök en þau eru íslensk, þau starfa á Íslandi og eiga hér heima. Þessi flugumaður, Mark Kennedy heitir hann, var ekki einungis njósnari að fylgjast með hvað þarna væri að gerast og hvað samtökin aðhefðust og hefðu í hyggju heldur var hann líka undirróðursmaður, „agent provocateur“, sem reyndi að æsa til öfgastefnu í samtökunum og jafnvel ofbeldisverka.

Hæstv. innanríkisráðherra hefur sett af stað rannsókn um hugsanleg tengsl þessa flugumanns við íslensk stjórnvöld. Við trúum því ekki hér í salnum eða annars staðar í samfélaginu að þau tengsl séu fyrir hendi fyrr en við tökum á því. Á hinn bóginn er það svo að Íslendingar og gestir þeirra á Íslandi verða að geta gengið að þeim rétti, þeirri vernd, að þeir geti starfað óformlega saman, í vinahópi eða í formlegum félagasamtökum án þess að þurfa að óttast óværu af þessu tagi. Við lítum á Breta sem vinaþjóð þrátt fyrir að margt hafi gengið á um aldir. Við höfum litið á Breta sem bandamenn um áratugaskeið. Þess vegna finnst okkur enn þá verra að þessi flugumaður sé á vegum breskra stjórnvalda.

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra um viðbrögð hans og ríkisstjórnarinnar í þessu efni.