139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

fréttir af breskum lögreglumanni og aðgerðasinna.

[15:32]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er ánægður með svör utanríkisráðherrans vegna þess að á diplómatísku er „afar umdeilanleg aðferð“ svipað og hreinskilnar og gagnkvæmar samræður sem fóru fram milli manna og er auðvitað á sinn hátt fordæming á því sem hér virðist hafa gerst. Bresk stjórnvöld hafa enn þá engu svarað um þetta og það er auðvitað rétt að kanna hvort þetta var að einhverju leyti á vegum íslenskra stjórnvalda. En ég endurtek: Við trúum því ekki fyrr en við tökum á að svo hafi verið.

Svo er auðvitað brandari að Tony Blair skyldi senda sérstakan mann til að fylgjast með kunningja mínum og nokkurra annarra hér inni, Ólafi Páli Sigurðssyni, og félögum hans. Það vekur upp spurningu um hvort hann fylgist með einhverju fleiru. Er Tony Blair með flugumenn t.d. í Samfylkingunni? [Hlátur í þingsal.] Það væri gott að hæstv. utanríkisráðherra upplýsti það. Er hann með flugumenn í Indefence eða Framsóknarflokknum? Við verðum auðvitað að losna við þetta. Það er óþolandi að bandamenn okkar séu annars vegar með flugumenn (Forseti hringir.) í íslenskum samtökum og hins vegar að Bandaríkjamenn séu að reyna að veiða upp úr Íslendingum persónuskjöl þingmanns (Forseti hringir.) sem hér er í salnum, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur.