139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.

[15:34]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. 3. desember sl. var skrifað undir fræga viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, fjármálafyrirtækja og fulltrúa lífeyrissjóða um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Boðað var að með þessum aðgerðum væri endanlega búið að ná utan um skuldavandann. Reyndar hafði það í sjálfu sér verið sagt áður á árinu 2010 en látum það liggja milli hluta.

Það hefur tekið hæstv. ríkisstjórn langan tíma að ljúka útfærslum á þessum aðgerðum og loks 15. janúar komu fram reglur um hvernig skyldi fara í svokallaða 110%-leið, sex vikum eftir að skrifað var undir viljayfirlýsinguna. Enn er óljóst um hvernig fer um vaxtabótaþáttinn, þ.e. það samkomulag sem átti að fara af stað, sérstaklega gagnvart lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum, um að þau fjármögnuðu vaxtabótaþáttinn sem ég hygg að hafi kannski verið það forvitnilegasta í þeim tillögum sem voru til umfjöllunar fyrir jólin.

Nú liggur fyrir að Alþingi ákvað að fresta nauðungarsölum til 31. mars nk. enda hafi þá allar þessar aðgerðir komið til framkvæmda. Við þessar aðgerðir núna vaknar sú spurning hvort sá frestur sé fullnægjandi í ljósi þessara tafa. Af þessu tilefni, vegna þess að heimilin eru vægast sagt orðin langeyg eftir boðuðum aðgerðum og að útfærslan sé trygg, langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra fjögurra spurninga:

1. Hefur farið fram raunveruleg athugun á því hversu mörg heimili rúmast innan þeirra aðgerða sem komnar eru til framkvæmda?

2. Telur hæstv. forsætisráðherra í ljósi þessara tafa nauðsynlegt að fresta nauðungarsölum enn frekar?

3. Telur hæstv. forsætisráðherra að með þessum aðgerðum sé búið að ná utan um skuldavanda heimilanna?

4. Í ljósi orða forseta ASÍ, hvenær er von á nýjum neysluviðmiðum? Og er hæstv. forsætisráðherra sammála forseta ASÍ í því að sú vinna sé forsenda kjarasamninganna?