139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.

[15:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það gekk heldur seinna en við bjuggumst við að ná utan um verklagsreglurnar en frá þeim var gengið fyrir helgi þannig að við skulum vona að þetta fari á fullt skrið. Eins og hv. þingmaður veit munu tugþúsundir njóta góðs af þessum aðgerðum. Við vitum að þrátt fyrir verulegt fasteignaverðsfall, um 40%, og um 30–50% hækkun á lánum vegna gengis og verðlags hefur okkur nú tekist að tryggja að allar skuldir umfram 110% af fasteignaverði verði afskrifaðar og það án þess að fólk missi heimili sín. Það hlýtur að skipta verulegu máli.

Hv. þingmaður nefndi vaxtakostnaðinn. Það er ekkert óljóst í því, það hefur verið reiknað út að 1/3 af vaxtakostnaði um 60 þús. heimila verði endurgreiddur í gegnum vaxtabæturnar. Það liggur fyrir útfærsla á þeim. Það liggur ekki enn fyrir samkomulag milli þessara aðila sem átti að fjármagna þetta, það er alveg ljóst, en það er verið að vinna í því. Það er engu að síður ekkert sem kemur í veg fyrir framkvæmdina. Það var gengið frá þessu við fjárlagagerðina þannig að við skulum vona að það gangi allt (Forseti hringir.) rétt, vel og eðlilega fyrir sig en að sjálfsögðu verður vel og skipulega fylgst með því hvort allar þessar aðgerðir skili sér eins og til stóð.