139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

svar við fyrirspurn.

[15:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi vakið athygli á máli sem skiptir töluvert miklu, bæði út frá því sérstaka máli sem spurt var um og líka í víðara samhengi. Annars vegar er um það að ræða að eins og menn þekkja eru þarna gríðarlegir hagsmunir í húfi sem um tíma eru í höndum ríkisbanka sem hefur komist í hendur ríkisins vegna bankahrunsins. Við þekkjum þá sögu alla, það er verið að selja þetta út núna eftir ákveðnum leiðum sem menn þekkja líka. Hins vegar er mjög sérstakt þegar upplýsingar af því tagi sem hér um ræðir sem varða jafnmikla hagsmuni, bæði fyrir hið opinbera og fyrir viðskiptalífið í heild, (Forseti hringir.) eru ekki aðgengilegar. Það er atriði sem ég tel að fara þurfi yfir.

Svo er hitt almenna atriðið, (Forseti hringir.) að þingmenn eiga auðvitað rétt á að fá skýr svör frá ráðherranum.