139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

svar við fyrirspurn.

[15:46]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki séð það svar sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vísar í en ég trúi varla að svarið sé með þeim hætti sem hv. þingmaður orðar það. Engu að síður er þannig búið um hnútana að ekki er ætlast til að þingmenn hafi afskipti af bönkunum með einum eða öðrum hætti. Mér þykir það í mörgum tilvikum mjög miður að geta ekki haft afskipti af því sem er að gerast í bönkunum. Til þess eru settar eftirlitsnefndir, Bankasýslan, slitastjórnir o.s.frv.

En ég ætla að minna á, af því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala hér um að það sé til skammar að þingmenn geti ekki fengið upplýsingar úr bönkunum, að Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, lét Stefán Má Stefánsson lögfræðing vinna mikla og ítarlega skýrslu — mig minnir að það hafi verið 2003 — sem kom til vegna einkavæðingar á Símanum frekar en bönkunum og þar kom fram að þingmenn ættu engan rétt (Forseti hringir.) á að fá upplýsingar úr einkavæddum fyrirtækjum. Þannig standa bara málin.