139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

svar við fyrirspurn.

[15:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er verið að tala um grafalvarlegt mál. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, af því að ég hallast að því að vera frekar formföst manneskja, að þetta eigi ekki heima undir þessum dagskrárlið. Hér er verið að tala um mjög alvarlegt mál sem er að gerast þessa dagana við sölu á fyrirtækjum sem hafa farið inn í bankana og ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að ræða það hér en ég held að við séum flest líka þeirrar skoðunar að við viljum ekki að þingmenn sitji í bankaráðum eða séu að selja þessi fyrirtæki. Hins vegar er ljóst að það er eitthvað að í því hvernig þessu háttar núna og ég mundi vilja mælast til þess að forseti sæi til þess að málið yrði tekið á dagskrá þingsins en ekki undir þessum lið.