139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

svar við fyrirspurn.

[15:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil nú leiðrétta það sem hv. þingmaður sagði hér, að ég sé búin að breyta um skoðun á 10 mínútum. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að ferlið eigi að vera opið og gagnsætt, það er lykilatriði að svo sé, en við höfum búið svo um hnútana á Alþingi, m.a. með löggjöf og reglum að því er varðar bankana og hvernig aðkoma stjórnmálamanna getur verið að bönkunum, að þar eru alls konar hindranir í vegi. Það getur vel verið að rétt sé að við skoðum það í þinginu hvort breyta eigi því ferli og að þingmenn og ráðherrar eigi að hafa meiri aðgang að bönkunum en á því eru auðvitað tvær hliðar.

Það var virkilega gagnrýnt á sínum tíma þegar stjórnmálamenn voru með puttana í bönkunum. (Gripið fram í.) En ég minnti bara á það hér og stóð þess vegna upp að fyrrverandi ráðherra, Davíð Oddsson, beitti sér fyrir því með (Gripið fram í.) greinargerð að ef opinber fyrirtæki væru hlutafélagavædd (Forseti hringir.) væri lokað fyrir allar upplýsingar til stjórnmálamanna úr bönkunum og úr þeim fyrirtækjum sem hefðu verið hlutafélagavædd. Ég gæti dregið fram ótal fyrirspurnir þar sem ég bað um ýmsar upplýsingar úr bönkunum og úr hlutafélagavæddum (Forseti hringir.) fyrirtækjum og einkavæddum, (Forseti hringir.) sem hefði nú betur verið svarað, en alltaf var vísað í þessa hlutafélagavæðingu og að (Forseti hringir.) stjórnmálamönnum kæmi ekkert við hvað væri að gerast inni í bönkunum [Kliður í þingsal.] eða Símanum á sínum tíma.