139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

svar við fyrirspurn.

[15:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég tel ástæðu til að ítreka þakkir til virðulegs forseta fyrir að taka þetta mál hratt á dagskrá. Það er gríðarlega mikilvægt og aðkallandi í ljósi þess að hér hefur orðið dálítið undarleg uppákoma. Ég held að það hafi varla farið fram hjá virðulegum forseta að hæstv. forsætisráðherra lenti í algjörri þversögn og mótsögn við sjálfa sig. Hún lýsti því áðan í svari sínu til mín að allt þetta ferli þyrfti að vera opið og gagnsætt og segir núna ítrekað að það sé engar upplýsingar að fá um þessi mál, þetta sé trúnaðarmál inni í bönkunum og allt sé þetta Davíð Oddssyni að kenna.

Það er annað sem ég hefði viljað nefna við virðulegan forseta. Getur ekki virðulegur forseti beitt sér fyrir því að vald Davíðs Oddssonar yfir ríkisstjórninni minnki vegna þess að nú er hæstv. forsætisráðherra margoft búin að lýsa því að hana langi að gera svo margt en alltaf kemur Davíð Oddsson og stoppar hana. [Hlátrasköll í þingsal.]