139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

dómstólar.

246. mál
[16:04]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun í ræðu hér á eftir gera efnislega grein fyrir sjónarmiðum mínum varðandi það frumvarp sem við ræðum hér. Ég vil þó taka það strax fram að ég tel að markmiðin með frumvarpinu séu jákvæð og í samræmi við það sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum kallað eftir varðandi dómstólana og eflingu þeirra. En ég hefði talið að menn hefðu átt að reyna að leita annarra leiða til að koma til móts við það markmið sem frumvarpinu er ætlað að ná. Með frumvarpinu er í rauninni verið að leysa tímabundinn vanda með því að grípa til ótímabundinna aðgerða, þ.e. álagið á Hæstarétt og dómstólana er mikið og við því er brugðist með því að skipa dómara ótímabundið. Ég hefði sjálfur talið það einnar messu virði að kanna nánar hvort ekki hefði verið skynsamlegra að skipa dómara tímabundið í embætti meðan mesti stabbinn af málum er hjá dómstólunum. Á það var ekki fallist í nefndinni og hv. formaður hennar hefur svo sem gert grein fyrir því í nefndaráliti sínu hvers vegna ekki og vísað til sjónarmiða um réttaröryggi.

Ég vildi koma því sjónarmiði mínu á framfæri að það hlýtur þá líka að eiga við varðandi það landsdómsmál sem senn verður rekið fyrir landsdómi. Af því leiðir að skipa þarf dómara tímabundið í Hæstarétt fyrir þá sem fara úr réttinum og taka sæti í landsdómi. Ég vildi koma þessu að í upphafi þessarar umræðu að mér finnst vanta svolítið samræmi (Forseti hringir.) í málflutning þeirra sem tala fyrir þessu máli.