139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

dómstólar.

246. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil andæfa því sem fram kemur í máli hv. þingmanns er varðar rökstuðninginn í þessari breytingartillögu sem felur í sér breytingu á eðli starfs forseta réttarins. Þessi breyting er einmitt mjög vel rökstudd í frumvarpinu og í nefndaráliti sem ég mælti fyrir áðan. Þannig er að forseti fer með yfirstjórn Hæstaréttar, eins og segir í nefndarálitinu, ber ábyrgð á rekstri, stýrir m.a. þeirri starfsemi Hæstaréttar sem ekki er hluti af meðferð máls fyrir dómi, skiptir verkum milli dómara og annarra starfsmanna og fer með agavald yfir þeim. Þetta hefur forseti réttarins gert samhliða öðrum dómstörfum og augljóst að umfang þessa starfs er að taka miklum breytingum. Það er að verða meira að vöxtum og þess vegna er gripið til þessa. Það er að tillögu réttarins sjálfs að þetta er gert á þennan veg. Mjög vandlega er farið yfir það í frumvarpinu hvers vegna verið er að grípa til þessa. Eftir að hafa skoðað þessi mál er ekki annað hægt en að fallast á þau sjónarmið sem lögð eru fram í breytingartillögunum.