139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[17:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að hafa fá orð um frumvarpið sem ég er meðal flutningsmanna að eins og aðrir nefndarmenn í allsherjarnefnd, að einum undanskildum hygg ég. Ég styð að málið nái fram að ganga. Þau sjónarmið sem ég vildi fyrst og fremst koma að eru að hér er um að ræða tvær spurningar. Annars vegar spurningin um hvort fyrirkomulag náms í Lögregluskólanum á að vera með þeim hætti að nemendur fái launaðar greiðslur meðan þeir eru í bóknámi eða ekki. Hins vegar er það spurningin um hver sé staða okkar í dag og hvað við getum gert til að stuðla að því að Lögregluskólinn geti tekið inn nemendur fljótlega eftir áramótin eins og áætlanir voru uppi um.

Ég kýs á þessari stundu að fara ekki djúpt í umræðuna um hvort námið eigi að hluta til að vera launað eða ekki. Við vitum hvernig fyrirkomulagið hefur verið. Hluta bóknámstímans hafa lögreglunemar fengið launagreiðslur frá Lögregluskólanum. Nú eru aðstæður þannig að ekki eru til peningar til að standa straum af slíkum greiðslum og því er farið í þessa endurskoðun. Það er auðvitað svolítið sérstakt að málið skuli bera að með þeim hætti sem það gerði á síðustu dögum fyrir þinglok. Það stafar einfaldlega af því að innan stjórnkerfisins var mönnum ljóst að við óbreyttar aðstæður væri ekki möguleiki að koma starfseminni af stað í febrúar eins og áætlað hafði verið, hygg ég, miðað við fjárhagsrammann sem skólanum var ætlaður. Því er málið hingað komið til þingsins með meiri hraða og minni fyrirvara en venja er með mál af þessu tagi.

Miðað við þá kynningu sem við fengum í allsherjarnefnd á síðustu þingdögum fyrir jól voru valkostirnir einfaldlega þessir: Annaðhvort verður hægt að hefja kennslu og taka nýnema í Lögregluskólann á þeim forsendum sem frumvarpið gerir ráð fyrir eða að fjárhagslegar forsendur eru ekki fyrir hendi. Við þær aðstæður taldi ég rétt að standa að flutningi frumvarpsins ásamt flestum nefndarmönnum í allsherjarnefnd og vonast til að það nái fram að ganga.

Hins vegar tel ég að aðrar spurningar sem við þurfum að velta fyrir okkur varðandi fyrirkomulag námsins í Lögregluskólanum og hugsanlega launagreiðslur og annað þess háttar séu meiri framtíðarmúsík sem við þurfum að taka afstöðu til síðar, hugsanlega þegar heildstætt frumvarp um breytingu á lögreglulögum kemur inn í þingið. Það kann að gerast einhvern tímann á næstunni, um það veit ég ekki, en boðað hefur verið að slíkt frumvarp verði flutt fyrr eða síðar. Eðlilegt er að ræða þetta við það tækifæri. Frumvarpið styð ég eins og það liggur fyrir og vona að það verði til þess að Lögregluskólinn geti hafið eðlilega starfsemi sem fyrst.