139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[17:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vissulega taka undir með hv. þm. Merði Árnasyni að meðferð þessa máls er nokkuð óvenjuleg. Ég er sammála hv. þingmanni í því að formsins beri að gæta í sem flestum málum og sem oftast. Hins vegar megum við ekki að mínu mati láta formið setja okkur alveg í hlekki.

Fram kom beiðni, ef ég má nota það orð, á síðustu þingdögum að allsherjarnefnd stæði að flutningi þessa frumvarps en ekki hæstv. ráðherra. Ég kann ekki forsöguna að því, hvort það er út af því að fólk í dómsmálaráðuneytinu sem þá hét svo hafi ekki unnið þá undirbúningsvinnu sem átti að gera eða hvort einhver hafi gleymt málum Lögregluskólans ofan í skúffu. Á hinn bóginn er alveg ljóst hvert efni þessa frumvarps er. Það snýst um að þeir sem sækja Lögregluskólann geti tekið námslán á annarri eða þriðju önn vegna þess að ekki eru til peningar í ríkissjóði til að greiða þeim starfslaun eins og verið hefur hingað til. Hingað til hafa lögreglumenn fengið námslán á fyrstu önn.

Ég er einn af flutningsmönnum. Ástæðan fyrir því er sú að ég taldi rétt að liðka fyrir því eða sjá til þess, hvaða orð sem maður notar yfir það, að þetta yrði mögulegt og því stend ég að þessum flutningi.