139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[17:26]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég skil það algjörlega að félagar mínir í hv. allsherjarnefnd hafi verið í nokkrum vanda þegar þessi bón kom fram. Ég tek eftir því að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur ekki hugmynd um hvers vegna málið fór eins og það fór.

Eins og ég sagði í ræðu minni á ég eftir að gera grein fyrir efnislegum athugasemdum eða fyrirspurnum um málið. Það sem ég hef talað um hér er gangur þess og formið. Ég vil segja, sá formalisti sem ég er, að formið skiptir ekki einungis máli af fagurfræðilegum ástæðum, og horfi ég þá djúpt í augun á hv. þm. Birgi Ármannssyni, heldur líka fyrir efnið. Formið skiptir máli fyrir umfjöllun málsins, meðferð þess og lok þess.

Svo að ég spyrji nú spyrjandann þá væri kannski fróðlegt, a.m.k. fyrir mann sem er nýr í nefndinni og hefur ekki lagt til þessa máls áður, að fá fram: Var eitthvað í umfjölluninni um Lögregluskólann, þegar nefndin fór í gegnum málið, sem svarar þeim spurningum sem óhjákvæmilega hljóta að hafa komið upp hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur við meðferð málsins, a.m.k. eins og ég sé það?