139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[17:27]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er svolítill vandi á höndum vegna þess að ég þyki sjálf stundum vera formalisti en ég get ekki svarað hv. þingmanni öðruvísi en því að ég man ekki nákvæmlega einstök atriði úr umfjöllun nefndarinnar á síðasta þingi. Þegar við fengum frumvarpið hins vegar í hendur og ég las það yfir þóttist ég í huga mínum hafa fjallað þannig um málið að ég treysti mér a.m.k. til að standa fyrir því að leggja það fram. Það er mín skoðun að ekkert sé athugavert við að þeir sem eru í Lögregluskólanum taki námslán en fái ekki starfslaun. Mér finnst það hinn eðlilegi háttur.