139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[17:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðrir flutningsmenn frumvarpsins hafa að einhverju leyti svarað einhverjum þeirra spurninga sem hv. þm. Mörður Árnason bar fram í ræðu sinni.

Ég vil fyrir mitt leyti ítreka það sem ég sagði áðan, eins og málið var lagt upp gagnvart allsherjarnefnd á síðustu sólarhringum fyrir þinglok í desember voru valkostirnir ekki góðir, annaðhvort að hreyfa sig eitthvað í málinu með það að markmiði að unnt yrði að hefja starfsemi í Lögregluskólanum núna í febrúar eða láta málið liggja kyrrt og skilja eftir þá aukna óvissu gagnvart framhaldinu á starfsemi skólans. Það var mitt viðhorf og að ég hygg annarra sem rituðu undir frumvarpið að með því að taka þátt í því gæfum við skýrt til kynna þá afstöðu okkar, yfirgnæfandi meiri hluta allsherjarnefndar og reyndar í mínu tilviki með góðum vilja þess þingflokks sem ég er fulltrúi fyrir í allsherjarnefnd, gagnvart málinu að í því fælist ákveðin vísbending sem gæti orðið stjórnendum og nemendum Lögregluskólans trygging, kannski ekki fullkomin trygging en a.m.k. nokkuð sem hönd á festi þannig að þeir gætu skipulagt starfsemi sína.

Hvað varðar þá gagnrýni sem hv. þm. Mörður Árnason hefur á aðkomuna að þessu máli, forsöguna og annað get ég ekki annað en tekið undir hana. Það er óheppilegt að mál beri að með þessum hætti, ekki gott, ég get alveg tekið undir það. En í þeirri stöðu sem við vorum í og sem þetta mál er í, hverjar svo sem ástæður þess eru, taldi ég rétt að standa að flutningi málsins.