139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[17:38]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa ræðu. Ég tel, eins og ég hef þegar sagt, eðlilegt að þingmenn í allsherjarnefnd hafi brugðist við með þessum hætti. Við hefðum þurft að fá meiri tíma og við hefðum þurft að heyra í ráðherranum á sínum tíma. Þetta mál kennir okkur kannski það að taka ekki við skipunum frá framkvæmdarvaldinu, að láta ráðherrann standa fyrir máli sínu þegar hann biður um greiða eða hvetur þingnefnd til að gera eitthvað. Ég tel að það eigi að vera skil milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins og að þau hafi ekki verið virt nægilega með þessum hætti. Ég hef áður sagt að efnisafstaða mín til þessa máls komi ekki í ljós fyrr en í störfum í allsherjarnefnd. Ég ætla ekki að tefja það. Ég ætla hins vegar ekki að sætta mig við annað en að það hljóti fullnægjandi þinglega meðferð.