139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[17:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins bæta við að þótt ég geti með engu móti varpað ljósi á þá atburðarás sem átti sér stað eða átti sér ekki stað og leiddi til þess að málinu skaut upp í þinginu, sennilega 16. desember eins og hv. þm. Mörður Árnason hefur rifjað upp, get ég alveg lýst þeirri skoðun minni að það hefði verið eðlilegt að afstaða til mála af þessu tagi yrði tekin á grundvelli frumvarps sem hefði komið fyrr fram og fengið meiri tíma. Við höfum hugsanlega einhvern tíma núna til að fara ofan í efnisþætti. Ég vil ekki útiloka það þó að við höfum ekkert rætt það í allsherjarnefnd hvernig með verði farið nú þegar málið er komið í málsmeðferð í þinginu.

Það hefði líka að einhverju leyti þurft að velta þessu máli upp í sambandi við afgreiðslu fjárlaga vegna þess að það er alveg ljóst að hér er, a.m.k. að hluta til, um fjárhagslegt mál að ræða sem varðar það að fyrir hendi er (Forseti hringir.) niðurskurðarkrafa sem m.a. bitnar á þessari starfsemi og setur menn í þá stöðu að þurfa að endurskoða fyrirkomulag sem verið hefur um langt árabil.